Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 15:41:37 (4456)

[15:41]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Það mátti skilja ræðu hv. 4. þm. Austurl. á þann veg að ég hefði verið að mæla með því að Alþingi drægi sig út úr þessu samstarfi. Ég var ekki að mæla með því. Ég var að mæla með því að á vettvangi samstarfsins flyttu fulltrúar Íslands þá skoðun og kæmu fram með þau sjónarmið og þær spurningar sem lytu að því hvort samstarfið væri nauðsynlegt, hvort það væri ekki ástæða til þess að hætta að eyða kröftunum á þeim vettvangi til þess að menn gætu látið betur að sér kveða annars staðar. Ég held

að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega í Evrópu, við sjáum öll þessi samtök í Evrópu, það sé mjög mikilvægt að fara að grisja þessi samtök og átta sig á því hvar við ætlum að leggja áhersluna, hvað er aukaatriði og hvað er aðalatriði í því samstarfi. Það var mín höfuðskoðun í þessu varðandi hlut okkar alþingismanna að við ættum að velta þessu fyrir okkur og þátttöku í RÖSE-samstarfinu á þessum forsendum. Auðvitað er það mjög mikilvægt eins og hv. 4. þm. Austurl. benti á að taka afstöðu til þess hvað eigi að gera við Rússland í Evrópu, hvernig eigi að fara með Rússland í Evrópu. Við getum haft okkar skoðanir á því og við eigum að hafa þær en á mestu veltur að sjálfsögðu hvert er viðhorf Rússa sjálfra. Og mér sýnist nú á þátttöku þeirra og hlut þeirra í Júgóslavíu að þá líti þeir þannig á að hlutur þeirra sé e.t.v að verja hagsmuni sem þeir skilgreina með öðrum hætti en við gerum og þeir séu þar að skilgreina kannski trúarlega hagsmuni eða þjóðernislega hagsmuni með öðrum hætti en við gerum þegar við lítum þannig á að það beri að sameina Evrópuríkin, það sé viss hætta að koma fram núna í Júgóslavíu og þeir atburðir sem hafa verið að gerast þar og Rússar fylla þar visst tómarúm kunna að marka þar meiri þáttaskil í samskiptum okkar Evrópuþjóðanna heldur en við kannski áttum okkur á á þessari stundu og séu meira stefnumarkandi en við gerum okkur ljóst núna þessa stund.