Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:57:00 (4472)

[16:57]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þar var ég staddur í ræðu minni þegar tíma mínum lauk áðan að ég var byrjaður að vitna til greinar í Morgunblaðinu frá 22. febr. 1994. Þetta er eins og ég sagði í Staksteinum sem eru sérstök gullkorn sem ritstjórn blaðsins tekur upp og prentar og má líta á það svona sem nokkurs konar aðra forustugrein blaðsins. Nú er ég ekki vanur að gera svo sérstaklega mikið með það sem Morgunblaðið segir. Morgunblaðið er málgagn Sjálfstfl. jafnvel þó það þykist ekki vera það og ég er ekki sammála öllu sem þar stendur. En þessir Staksteinar eru með þeim hætti að ég tel að þeir eigi fullt erindi í Alþingistíðindin og sanni þann málflutning sem við andstæðingar EES-samningsins höfðum uppi og höfum haft uppi og ég fagna þessum öfluga bandamanni, öflugasta fjölmiðli þjóðarinnar. Þetta er tilvitnun eða þýðing á grein í Lov og rett, norsk juridisk tidsskrift. Og síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,EES-flóðbylgja. Norskur fræðimaður við Óslóarháskóla, Finn Arnesen, líkir áhrifum EES-samningsins á norskan rétt við flóðbylgju. Segir hann í leiðara Lov og rett að nú verði norskir lögfræðingar að taka sundtökin. Staða Norðmanna á hinu Evrópska efnahagssvæði er sú sama og Íslendinga og því eru hugleiðingar hans fróðlegar.
    Í leiðara Lov og rett vitnar norski fræðimaðurinn Finn Arnesen í Denning lávarð sem lét svo ummælt í dómsmáli árið 1974 fyrir lávarðadeildinni, æðsta dómstigi Bretlands, að um leið og mál hefðu evrópska skírskotun væri stofnsamningur Evrópubandalagsins svo kraftmikil réttarheimild andspænis löggjöf heimaríkisins að líkja mætti við flóðbylgju sem flæddi upp árósa og fljót og ekkert megnaði að stöðva hana. Síðan segir Arnsen:
    ,,Við Norðmenn höfum hingað til fyrst og fremst komist í tæri við EB-réttinn af áhuga fremur en nauðsyn. Þetta hefur nú breyst. 1. janúar 1994 tók EESsamningurinn gildi og þar með þau lög og reglugerðir sem settar voru til að hann yrði hluti af norskum rétti. Þar með urðu breytingar á norsku réttarkerfi sem eiga sér fá eða nokkur dæmi í norskri réttarsögu. Þetta eru meiri en hefðbundnar réttarumbætur því að nú tengist norska réttarkerfið öðru réttarkerfi, EB-réttinum. Sú spurning vaknar hvort EES-samningurinn, líkt og stofnsamningur EB, líkist flóðbylgju sem ekkert heldur í skefjum. Framtíðin verður að leiða það í ljós. Samt má festa eftirfarandi hugleiðingar á blað.
    Í fyrsta lagi mun samningurinn hafa mun raunhæfari þýðingu fyrir einstaklinga og aðra lögaðila en aðrir milliríkjasamningar sem Norðmenn eru aðilar að. Þar við bætist að efnissvið samningsins er vítt og hann hefur áhrif á mikinn hluta reglna um atvinnustarfsemi í Noregi. Þetta þýðir að lögfræðingar, hvort sem það eru lögmenn, dómarar eða starfsmenn stjórnsýslunnar eða háskólamenn, munu þurfa að taka á lögfræðilegum álitamálum sem tengjast EES-samningnum sem hluta af norskum rétti. Það virðist því viðeigandi að líkja samningnum við flóðbylgju sem skellur á okkar innlenda regluverki.
    Í öðru lagi setur samningurinn löggjafarfrelsi innlendra stjórnvalda skorður bæði hvað varðar það hvort setja skuli í lög eða reglugerðir svo og hvers efnis þau eigi að vera og í hvaða formi. Í samningnum er nefnilega kveðið á um að hann eigi að vera hluti af norskum rétti og einnig hvernig þetta skuli gerast, sbr. 7. gr. samningsins. Þetta þýðir að að norskum rétti bætast réttarreglur sem við munum ekki endilega sjá þörfina fyrir, sem við verðum e.t.v. ekki efnislega samþykk og í formi sem við sjáum ekki hvar ætti heima. Þetta er þróun sem við getum ekki stöðvað án þess að segja samningnum upp. Að þessu leyti er samlíkingin við flóðbylgju ekki að öllu leyti út í hött.
    Þriðja athugasemdin lýtur að hinu nána samhengi milli ákvæða EES-samningsins og EB-réttarins. Eitt meginmarkmið samningsins er réttareining EB-réttar og EES-réttar. Eitt af því sem á að stuðla að þessu er ákvæði 6. gr. samningsins en af henni leiðir að dómar EB-dómstólsins varðandi EB-rétt eru mikilvægt gagn við skýringu samningsins. Með öðrum orðum: Dómar EB-dómstólsins frá 1954 og framvegis skipta máli við túlkun EES-samningsins. Ef við höfum í huga magnið sem hér um ræðir, dómar EB-dómstólsins á árinu 1990 einu saman þöktu um 5 þúsund síður, er kannski of veikt að líkja hinum auknu réttarheimildum, sem norskir lögfræðingar verða að fást við, við flóðbylgju.
    Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir norska lögfræðinga? Auðvitað margháttaða. Hér verður bara vikið að tvennu: Hið fyrra og augljósara er að tiltækum röksemdum fjölgar. Það verður ekki lengur nóg að halda sig við innlend undirbúningsgögn og innlenda réttarframkvæmd; það verður líka að glugga í dóma EB-dómstólsins, ákvarðanir framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og EES-samninginn á öðrum tungumálum. Smám saman bætast svo við úrskurðir EFTA-dómstólsins og eftirlitsstofnunar EFTA. Að þessu sögðu er ástæða til að undirstrika að aðalgögnin við skýringu EES-samningsins verða samt norsk undirbúningsgögn og norskir dómar.
    Hið síðara varðar það hlutverk EES-samningsins að hann setur löggjafarfrelsi aðildarríkjanna skorður. Reynslan frá Evrópubandalaginu sýnir að ósjaldan beita menn á árangurríkan hátt réttarreglum Evrópubandalagsins til stuðnings annarri niðurstöðu en þeirri sem leiðir af innlendum réttarheimildum. Það má gera ráð fyrir að svipað gerist í kjölfar EES-samningsins . . .   Það mun einhver tími líða áður en afleiðingar EES-samningsins koma fram að fullum þunga. Ég hygg samt að þróunin verði hraðari en verið hefur í Evrópubandalaginu.
    Stíflan brast 1. jan. 1994. Nú ríður á að norskir lögfræðingar taki sundtökin.````
    Frú forseti. Ég tel að þrátt fyrir það að ég sé sjaldan sammála því sem stendur í forustugreinum eða Staksteinum Morgunblaðsins að hér hafi Morgunblaðið með ótvíræðum hætti sannað mál okkar og ég taldi þetta sönnunargagn svo mikilvægt að ástæða væri til þess að koma því inn í Alþingistíðindin.