Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 17:05:00 (4473)


[17:05]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Í því sem hv. þm. las upp kom ekkert nýtt fram miðað við það sem sagt hefur verið hér í þingsölum um þetta mál og áhrif þess að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Hann las hér upp úr þýðingu í Morgunblaðinu úr norsku tímariti, Lov og rett, sem er tímarit fyrir norska lögfræðinga og þar er að finna ábendingar til norskra lögfræðinga um það að þeir eigi að búa sig betur undir málaferli og málafylgju með vísan til hins evrópska réttar. Það er einnig þarft fyrir íslenska lögfræðinga að átta sig á þessu og tileinka sér þessar starfsaðferðir. Ég leit því ekki á þetta sem neina stefnumarkandi grein í Staksteinum Morgunblaðsins heldur þvert á móti sem ábendingu til okkar Íslendinga og íslenskra lögfræðinga eins og hinna norsku að þeir yrðu að búa sig undir að nýjar réttarheimildir komu til sögunnar 1. jan. 1994. Það sem mér þótti merkilegast við þessa norsku grein var það að lögfræðingurinn sem skrifaði hana var algerlega sammála okkur sem fluttum mál á síðasta þingi um þetta atriði, bæði varðandi 6. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og aðrar réttarheimildir sem þar koma til álita. Það kemur ekkert nýtt fram í þessu annað en þessi hvatning til norskra lögfræðinga um að búa sig undir að taka sundtökin við nýjar aðstæður og það er full ástæða til að brýna þetta einnig fyrir íslenskum lögfræðingum. Þess vegna þakkarvert að hv. þm. las þetta hér upp.