Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 17:07:00 (4474)


[17:07]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Þetta er býsna hláleg staða ef nánar er að gáð. Hér stend ég og þarf að verja Staksteina Morgunblaðsins fyrir hv. 3. þm. Reykv. sem iðulega hefur lesið þá a.m.k. og jafnvel átt hlut að máli í þeim tilskrifum sem þar er frá sagt. Hann sagði að það væri ekkert nýtt að heyra það sem stóð hér í þessari grein í þingsögunni. Nei, það er sko sannarlega ekkert neitt nýtt að heyra það því það er bara nákvæmlega verið að taka undir þau sjónarmið sem við, sem lögðumst gegn samningnum og héldum því fram að hann væri brot á íslensku stjórnarskránni, héldum fram og það er ekkert nýtt hér í þingsölum þó að meiri hluti Alþingis hafi ekki viljað taka mark á því og sjúskað með stjórnarskrána með þeim hætti sem gert var hér í fyrra. Það er sem sagt verið að segja frá því í Staksteinum Morgunblaðsins í tilvitnuninni í Lov og rett þriðjudaginn 22. febr. 1994, það er verið að sanna það að við höfum framselt hluta af löggjafarvaldinu úr landi og hluta af dómsvaldinu.