Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 17:08:00 (4475)


[17:08]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Það stendur ekkert í þessari grein um framsal á löggjafarvaldi eða dómsvaldi. Þvert á móti er verið að tala um lögskýringargögn. Ég andmælti þessu á engan hátt og tel þakkarvert að þetta birtist í Staksteinum Morgunblaðsins. Það kemur heldur hvergi fram í þessari grein að um stjórnarskrárbrot sé að ræða, hvorki í Noregi né á Íslandi. Það sem höfundurinn gerir er að vitna í Denning lávarð, þann kunna dómara í Bretlandi og síðan leggur hann út af hans orðum og bendir norskum lögfræðingum á það að þeir þurfi að taka sundtökin miðað við nýjar aðstæður. Þetta er hvatning til norskra lögmanna að læra nú Evrópuréttinn vel og tileinka sér þær lögskýringarheimildir sem þeir eiga að taka tillit til miðað við þennan samning. Ég vona að hv. þm. Páll Pétursson lesi með því hugarfari að hann átti sig á því hvað stendur. Það er hvergi vikið að stjórnarskrárbroti, hvergi vikið að framsali á valdi. Það er þvert á móti verið að hvetja lögfræðinga til að vinna heimavinnuna vel og tileinka sér þau lög og þær lögskýringarheimildir sem þeir þurfa að hafa, enda er í 6. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hvergi vikið að því að verið sé að framselja valdið til evrópska dómstólsins. Þvert á móti er þar talað um að það eigi að nota úrskurði hans sem lögskýringarheimildir í aðildarríkjunum.