Vestnorræna þingmannaráðið 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 17:14:10 (4478)

[17:14]
     Árni Johnsen :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu um störf Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir árið 1993. Að vísu er jafnframt búið að leggja fram í þinginu till. til þál. um samþykkt Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir sama ár en hún er ekki komin á dagskrá enn þá og mun ég kannski fjalla aðeins örlítið um hana hér vegna tengsla málsins.
    Kjör fulltrúa Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir sl. ár átti sér stað 21. des. 1992 og síðan var aftur kosið 18. des. 1993 fyrir núverandi starfsár, þar sem eiga sæti hv. þm. Jón Heglason, Petrína Baldursdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir auk þess sem hér talar.
    Það er í stuttu máli um störf Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins að segja og þingmannasambandsins í heild að segja má að starfsemi þess hefur þroskast nokkuð á þeim árafjölda sem það hefur starfað. Það hefur sýnt sig að það eru mörg verkefni sem eru brýn í þessu starfi og mikilvægt að rækta betur en gert hefur verið tengsl þessara norrænu jaðarríkja, Færeyja, Íslands og Grænlands. Raunar má líka viðurkenna að við Íslendingar höfum kannski í raun ekki verið sá stóri bróðir sem skyldi í samstarfi og tengslum við þessar tvær grannþjóðir okkar því að þarna er um margs konar sameiginlega hagsmuni að ræða, sameiginlegan farveg í mörgum þáttum, bæði í atvinnulífi og almennu þjóðlífi og hygg ég að við ættum að leggja mun meiri áherslu á einmitt þetta norræna samstarf á sviði Vestnorræna þingmannasambandsins og þingmannaráðsins en gert hefur verið.
    Það voru haldnir 6 fundir á starfsárinu og ég vil nota tækifærið til að þakka ritara ráðsins, Lene Hjaltason, fyrir góð störf því að það byggist mikið á því að ritarar í þessu starfi sinni því vel og það hefur gengið vel eftir. Það má nefna dæmi um smærri mál sem koma til kasta Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins, fylgni við samgöngur í flugi sem standa mjög illa í dag. Eitt íslenskt félag, Odin air, hefur áætlunarflug á austurströnd Grænlands en Flugleiðir hafa ekki fengið nein vilyrði eða neinar heimildir fyrir áætlunarflugi til Grænlands og má segja að samgöngur milli Grænlands og Íslands séu mjög slæmar. Til að mynda getur komið upp dæmi ef Íslendingur þarf að sækja heim t.d. Qaqortoq á Suður-Grænlandi þá kann sú ferð að taka að lágmarki 14 daga fram og til baka og þá í gegnum Kaupmannahöfn. En þetta er aðeins staðfesting á því að það er að mörgu að hyggja og mörgu að vinna á þessu sviði. Það er ekki boðlegt að ekki skuli nást betri samningar um samgöngur við næstu granna okkar því að það eru

Grænlendingar. Það hefur verið aukning í ferðamannastraumi til Íslands og aukning ferðamanna sem vilja um leið nota tækifærið og heimsækja Grænland en það er búið að setja girðingar og þröskulda í veg fyrir þessa þjónustu nema á ákveðnum tímum og við ákveðnar takmarkaðar aðstæður. Þetta er aðeins dæmi um það sem hefur komið til umræðu og ætti auðvitað að ganga lengra inn í Norðurlandaráð og ekki síst á vettvangi ríkisstjórnar beinlínis í samþykktum og uppbyggingu á aukinn hátt á þessum vettvangi.
    Samgrh. hefur skrifað undir samning um aukna starfsemi milli þessara landa og það er vel. Hæstv. samgrh. hefur gert það ekki alls fyrir löngu og það er mjög af hinu góða en margt er óunnið og gengur hægt svo vægt sé til orða tekið.
    Það var rætt um ýmsar tillögur á sl. ári eða snemma árs sem síðan voru fluttar á ársfundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Færeyjum sl. sumar og ætla ég aðeins að víkja að þeim tillögum. En sá fundur, 9. ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins 1993, var haldinn í Þórshöfn í Færeyjum 21. júní sl. Hann sóttu af hálfu Íslandsdeildar þingmannaráðsins hv. þm. Árni Johnsen, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Jón Helgason, Karl Steinar Guðnason og Steingrímur J. Sigfússon. Alls sóttu 15 vestnorrænir þingmenn ársfundinn, en færeyski þingmaðurinn Lisbeth Petersen tók þá við formennsku í ráðinu af Árna Johnsen.
    Á fundinum voru fluttar skýrslur um störf landsdeildanna og fjallað um þær. Þær tillögur sem samþykktar voru og Vestnorræna þingmannaráðið mælti með til landsstjórna Færeyja og Grænlands og ríkisstjórnar Íslands eru í nokkrum liðum.
    Í fyrsta lagi að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands auki til muna upplýsingamiðlun í vestnorrænu löndunum, sérstaklega varðandi ferðamál. Með það að markmiði beindi fundurinn þeim tilmælum til ríkisstjórnanna að láta Vestnorræna ferðamálaráðið (Vestnorden Tourist Board) sjá um sérstaka þriggja ára upplýsingaherferð. Með þessu móti var stefnt að því að hrinda af stað frekari aðgerðum í ferðamálum í vestnorrænu löndunum á árunum 1994--1996 og gert ráð fyrir að vestnorrænu löndin veiti aukið fjárframlag til auglýsinga og markaðssetningar í löndunum. Ráðið mælti með að ofangreindar aðgerðir yrðu framkvæmdar í náinni samvinnu ferðamálaráðanna í vestnorrænu löndunum.
    Þá var einnig mælt með því að styrkur sá sem veittur var úr Lánasjóði Vestur-Norðurlanda til ofangreindra aðgerða frá 1986 verði tekinn til athugunar og umfjöllunar.
    Í öðru lagi var tillaga um það að landsstjórn Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands hefji listræna samvinnu milli landanna þriggja með því að halda listahátíð einu sinni á ári, til skiptis í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi, þar sem listamenn frá Grænlandi og Íslandi fari með verk sín á listahátíð í Færeyjum, t.d. árið 1994, og því næst til annars hinna landanna árið eftir. Þannig er unnt að styrkja sambandið milli landanna á sviði myndlistar, tónlistar, bókmennta og ýmissa annarra listgreina. Haft verði samband við þau listamannasamtök og verkalýðshreyfingar í löndunum þremur þar sem slík listastarfsemi á sér stað. Eðlilegt væri við slíkar listahátíðir að náin samvinna væri við norrænu stofnanirnar í löndunum og best væri ef þær hefðu með höndum framkvæmdina að hluta til.
    Í þriðja lagi var samþykkt að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands skipi samráðshóp með sex fulltrúum frá menntamálaráðuneytum og verkalýðshreyfingum landanna þriggja til að athuga möguleika á því að koma á nemendaskiptum milli Íslands, Færeyja og Grænlands og niðurstaða ætti að liggja fyrir á ársfundi Vestnorræna þingmannaráðsins sumarið 1994.
    Í fjórða lagi að landsstjórnir og ríkisstjórn þessara þriggja landa skipi embættismannanefnd með embættismönnum frá löndunum þremur sem m.a. eigi að vinna hratt að því að:
    1. skýra og bera saman þá viðskiptasamninga sem löndin hafa gert við EB og hvaða áhrif norsk, sænsk og finnsk aðild að EB mundi hafa á samskipti Vestur-Norðurlanda og EB,
    2. reyna að meta kosti og galla þess fyrir hvert vestnorrænt land fyrir sig ef þau ganga í tollabandalag við EB eða tengjast á svipaðan hátt sem eitt tollsvæði við EB. Aðilar skiptist stöðugt á upplýsingum.
    Þá er lagt til að greinargerð slíkrar nefndar verði rædd á fundi í Vestnorræna þingmannaráðinu.
    Í fimmta lagi var samþykkt að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands skipi samstarfsnefnd með það að markmiði að minnka áfengisneyslu og berjast gegn misnotkun áfengis og samræmi auk þess meðferð drykkjusjúkra í löndunum.
    Þá var og samþykkt að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands láti athuga kjör barna og fjölskyldna í löndunum þremur.
    Þá voru gefnar yfirlýsingar í samræmi við 2. gr. í 1. kafla samkomulagsins um Vestnorræna þingmannaráðið og samþykkt af Vestnorræna þingmannaráðinu að leggja fram eftirfarandi yfirlýsingar:
    1. Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum sérstaklega til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Grænlands með tilliti til fjárhagsstöðu Færeyja að bjóða Færeyingum öðrum fremur að nýta þá fiskveiðikvóta landanna sem eru ónýttir.
    2. Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til ríkis- og landsstjórna vestnorrænu landanna að leggja sitt af mörkum til að ljúka byggingu Grænlendingahússins í Þórshöfn sem fyrst og að þær standi við áður gefin loforð um fjárstyrki, sérstaklega af hálfu Grænlands og Færeyja.
    3. Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til landsstjórnar Færeyja að hún hefji á ný grænlenskar útsendingar í færeyska útvarpinu. Þetta er venja sem grænlenska útvarpið fylgir með því að senda út efni á færeysku í samræmi við áður gerða samninga. En verulegur hluti sjómanna frá báðum þessum grannþjóðum okkar eru á fiskimiðum annars vegar við Grænland og hins vegar við Færeyjar og er þetta fyrst og fremst þjónusta við þá, en þar er fjöldi manna, svo nemur hundruðum.
    4. Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til landsdeildanna í vestnorrænu löndunum að þær veiti athygli og styðji það starf sem tengist Vestnorræna kvennaþinginu og auðveldi Vestnorræna þingmannaráðinu störf sín að jafnréttismálum.
    Hér hefur verið fjallað um þær tillögur sem voru afgreiddar á 9. ársfundi Vestnorræna þingmannaráðsins sl. ár. Satt best að segja hefur nokkuð dregist að þær kæmu hér á dagskrá. Þær hafa verið í skjalasafni þingsins síðan fyrir jól og hefði verið kostur að hafa þær fyrr til umræðu og afgreiðslu því á því byggist að ná upp tímasetningu sem miðað er við í tillögunum sjálfum sem afgreiddar voru í Færeyjum.