Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 18:00:50 (4481)


[18:00]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér varð nokkur umræða um þá skýrslu sem ég hef lagt fram um Alþjóðavinnumálaþingið og að hér sé skipst á skoðunum um atriði sem hafa verið deiluefni um nokkra hríð og snerta þau ákvæði sem hv. síðasti ræðumaður drap helst á um skylduaðild að stéttarfélögum. Ég tel rétt í ljósi orða hans að árétta það að ríkisvaldið hefur ávallt haldið því fram og það er rétt að það eru ekki ákvæði í lögum sem skylda fólk til aðildar að stéttarfélögum. Hins vegar er um forgangsréttarákvæðin að ræða sem sérfræðinganefndin hefur að vísu talið að bryti í bága við ákvæði 5. gr. félagssáttmálans en embættismannanefndin er aftur á móti ekki sammála. Ég tel rétt að árétta það og leggja áherslu á það að forgangsréttarákvæðin hafa komið til í frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins og ég tel að þau eigi áfram að lúta slíkum frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins og þau á hvorki að afnema né staðfesta með lögum. Ef alþjóðasamþykktir eða dómar sem Ísland hefur gengist undir ganga gegn slíkum ákvæðum er eðlilegast að aðilar vinnumarkaðarins taki það til eftirbreytni.
    Ég vildi þess vegna í ljósi orða síðasta ræðumanns einungis árétta það að stjórnvöld hafa haldið því fram að það séu ekki ákvæði í lögum sem skylda fólk til aðildar að stéttarfélögum. Ágreiningurinn hefur einungis staðið um forgangsréttarákvæðin sem hafa komið til í frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins.