Skráning notaðra skipa

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:21:26 (4490)


[15:21]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegur forseti. Það er hreyft hér athyglisverðu máli sem vissulega er full ástæða til að gefa betri gaum að, einkum og sér í lagi þegar það er haft í huga að ekki er langt síðan að íslenskt fiskiskip sem hét áður Hjörleifur og er nú komið undir þægindafána var með pólska áhöfn og þar urðu deilur um borð vegna uppgjörsmála. Þá lét ágætur eigandi þess skips sem er Íslendingur hafa það eftir sér að sér þætti miður að hafa ráðið erlenda sjómenn vegna þess að hann sæi muninn á þeim íslensku og erlendu. Hitt er svo annað mál að það er farið að ráða íslenska sjómenn á fiskiskip undir þægindafánum og það er alvarlegur hlutur vegna þess að öryggismálunum er sinnt annars staðar frá en frá Siglingamálastofnun. Þess vegna er það sjálfsagt og eðlilegt að við reynum að gera allt það sem hægt er til þess að koma þessum skipum undir íslenskan fána frekar en að láta þetta ástand vera sem nú er. Það er rétt eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni að þegar eru skip undir þægindafánum farin að athafna sig hérlendis þannig að það er eðlilegt að við hugum að þessu máli frekar.