Skráning notaðra skipa

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:25:31 (4493)


[15:25]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og þeim þimgmönnum undirtektir sem hér hafa gert athugasemdir. En ég verð að viðurkenna að mér fannst svarið heldur rýrt og miðað við þær aðstæður sem við búum við núna var svarið í þá ætt sem við köllum að stinga höfðinu í sandinn. Það þýðir ekkert að loka augunum og neita að horfast í augu við staðreyndir. Það finnst mér vera að gerast í þessu máli. Hæstv. ráðherra talaði um að það væri verið að flytja inn aflóga erlend fiskiskip. Það eru nokkuð kaldar kveðjur til duglegra athafnamanna á Norðausturlandi sem hafa verið að kaupa skipin núna og eru ekki meira aflóga en það að þau voru endurbyggð í Slippstöðinni á Akureyri árið 1986 og ef ég man rétt var hæstv. ráðherra stjórnarmaður í því fyrirtæki þegar það var gert. Tel ég víst að þar hafi betur verið staðið að hlutum en svo að þau séu orðin aflóga núna sjö árum seinna. Hérna verða menn einfaldlega að horfast í augu við eðli máls en ekki hengja sig í lagakróka og ef þarf að breyta lögum þá verður þeim breytt. Hæstv. ráðherra hikaði ekki við að fara fram á það við Alþingi í fyrra að það samþykkti að inn á skrá væri tekið skip sem var búið að vera í notkun í íslenskri lögsögu og meira að segja sokkið. Þannig að ráðherrann hefur ekkert verið að víla það fyrir sér.
    Hæstv. ráðherra nefndi einnig að það væru næg ónýtt fiskiskip hér núna. Það er nokkuð til í því en vegna þess að ríkisstjórnin kemur engu fram hvað snertir lagabreytingar varðandi fiskveiðistjórnun þá

stendur það í íslenskum lögum núna að það er óheimilt að taka af þeim veiðiheimildir og nota þau til úthafsveiða öðruvísi en að skrá þau undir erlendum fána. Þannig er það með þessa blessuðu ríkisstjórn að það er sama hvar er borið niður, það kemst ekkert mál fram sem nauðsynlegt er til þess að bregðast við breyttum aðstæðum.