Sjálfvirkur sleppibúnaður um borð í skipum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:33:09 (4496)


[15:33]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Árið 1988 vann Iðntæknistofnun að prófun á þeim sjálfvirka sleppibúnaði sem samþykktur hafði verið í skipum. Þetta voru Ólsen- og Sigmundsbúnaður. Niðurstaða prófunarinnar var m.a. sú að hvorugur búnaðurinn fullnægði þeim kröfum sem gerðar voru samkvæmt reglugerð um björgunar- og öryggisbúnað skipa. Þegar þetta var ljóst ákváðu stjórnvöld að endurskoða reglur um björgunar- og öryggisbúnað skipa og þar á meðal reglur um sjósetningar- og sleppibúnað. Sú endurskoðun fór fram í nánu samráði við hagsmunaaðila. Samvæmt nýju reglunum er kröfum til sleppibúnaðar breytt þannig að búnaður sem til er í landinu fullnægir þeim.
    Þá er spurt hvenær von sé á nýrri reglugerð um þetta brýna öryggismál sjómanna. Því er til að svara að undirbúningur nýrrar reglugerðar um björgunar- og öryggisbúnað skipa er á lokastigi og ég get því ekki séð að neitt eigi að vera því til fyrirstöðu að hún verði gefin út innan skamms.