Bætur vegna samninga um riðuveiki

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:38:32 (4499)


[15:38]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Fyrstu tvær spurningarnar eru þess eðlis að rétt er að svara þeim samtímis. Spurt er hvort landbrh. geti upplýst hvort þeir ábúendur á lögbýlum sem förguðu sauðfé eða misstu stóran hluta bústofns á árunum 1980--1985 af völdum riðuveiki hafi sætt öðrum og verri kjörum en síðar varð og um hversu mörg tilvik af slíku tagi ráðuneytinu sé kunnugt.
    Það virðist rétt að flokka framangreinda aðila í þrjá hópa. Í fyrsta hópi eru aðilar sem staðið höfðu að fjárskiptaaðgerðum á vegum Sauðfjárveikivarna á árunum 1980--1985. Hér er um að ræða aðila á rúmlega 70 lögbýlum og þeim var ákvarðaður fullvirðisréttur þegar þeir hófu framleiðslu að nýju eftir reglum sem landbrn. staðfesti að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Þessar reglur voru í heild rýmri en aðrir framleiðendur bjuggu við, m.a. til að leiðrétta það tjón sem bændur höfðu búið við vegna

sjúkdómsins. Almennt má segja að viðkomandi aðilar hafi unað þessum úrskurði þar sem sáralítið var um athugasemdir vegna ákvörðunar á fullvirðisrétti þeirra og mun minni en hjá almennum framleiðendum.
    Í öðrum hópnum eru þeir sem bjuggu við riðu í fjárstofni sínum á viðmiðunarárum fullvirðisréttar 1984 og 1985 en niðurskurður var framkvæmdur á árinu 1986 eða síðar. Hér er vafalítið um allstóran hóp framleiðenda að ræða en hins vegar engin skýrslugerð til sem skilgreinir þennan hóp. Þessir aðilar fengu fullvirðisrétt ákvarðaðan árið 1986 hliðstætt og allir aðrir reglulegir sauðfjárbændur. Leiðréttingar á þeim almennu úthlutunum voru samkvæmt reglugerð á vegum búnaðarsambandanna úr potti sem til þess var myndaður. Í þessu sambandi er vert að geta þess að pottur þessi var ákaflega takmarkaður eða 3% af heildarrétti og svigrúm sambandanna til leiðréttinga því lítið. Riðuveikin var auk þess staðbundin þannig að leiðréttingar hafa komið misjafnt niður eftir svæðum. Ekki eru tiltækar neinar upplýsingar sem gera mögulegt að meta áhrif af umræddu tjóni og að hve stórum hluta það hafi verið bætt á einstökum svæðum.
    Í þriðja hópnum eru aðilar sem skáru niður fjárstofn sinn á árunum 1980--1985 án samningagerðar við Sauðfjárveikivarnir. Nokkuð mun hafa verið um slíkt en með öllu ógerlegt að fá yfirlit um það þar sem um einstaklingsbundna framkvæmd var að ræða án samráðs við opinbera aðila. Í allmörgum tilvika munu hafa fylgt margvíslegar búháttabreytingar. Nokkrir aðilar sem stóðu að slíkum niðurskurði hafa leitað til landbrn. og/eða Framleiðsluráðs landbúnaðarins til leiðréttingar á framleiðsluréttarmálum sínum. Slík mál hafa fengið jákvæða umfjöllun.
    Eins og sjá má af þessu hefur ekki verið fylgt sömu reglu alla tíð hvað varðar bætur fyrir niðurskurð sauðfjár. Það má einnig minna á að á fyrstu árunum var ekki neitt sérstakt fjármagn til ráðstöfunar í þessar aðgerðir. Árið 1987 var ákveðið að gera tilraun til að útrýma riðuveiki í landinu og veitt til þess fjármagn á fjárlögum. Á það skal einnig bent að liðin eru 13 ár frá því fyrstu bætur voru greiddar og allur samanburður því erfiður, en allar bætur hafa verið greiddar eftir gildandi samningum á hverjum tíma. Til að skýra málið enn frekar skal eftirfarandi upplýst:
    Bæturnar voru miðaðar við skattmat sauðfjár sem ákveðið var af ríkisskattstjóra og voru slíkir samningar gerðir við ábúendur á 46 lögbýlum. Þar sem skorið var niður í heilu sveitarfélagi, Barðastrandarhreppi, á samtals 21 lögbýli og öðrum jaðarsvæðum á samtals átta lögbýlum voru greiddar afurðatjónsbætur. Þær bætur voru miðaðar við 65% af frálagsverði 15 kílóa dilks samkvæmt verðlagsgrundvelli fyrir hverja vetrarfóðraða kind fyrsta og annað fjárleysisárið en 45% fyrir þriðja fjárleysisárið. Á árunum 1987 til haustsins 1993 voru afurðatjónsbætur greiddar eftir sömu reglum og hér að ofan nema fjárleysistíminn var styttur í tvö ár frá 1990. Á árinu 1986 gerði Framleiðnisjóður landbúnaðarins fjöldasamninga við bændur um leigu fullvirðisréttar og tveggja til þriggja ára fjárleysi. Leigan var miðuð við 5.600 kr. á ærgildi. Frá haustinu 1993 miðast afurðatjónsbætur við greiðslumark á því lögbýli þar sem niðurskurður fer fram.
    Svarið við síðustu spurningunni er svohljóðandi: Ráðuneytið hefur ekki í hyggju að gera sérstakan samanburð milli einstaklinga né bera saman bætur til þeirra eftir því á hvaða ári niðurskurður fór fram hjá þeim. Ítrekað skal að allur slíkur samanburður, sem spannar þrettán ára tímabil aftur í tímann, er illmögulegur og jafnframt skal endurtekið að allar bætur voru greiddar eftir gildandi samningum á hverjum tíma.