Bætur vegna samninga um riðuveiki

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:44:05 (4500)


[15:44]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það hefur verið nokkur losarabragur á þessum samningum í gegnum tíðina. Það hafa verið gerðir mismunandi samningar við einstaka bændur, ekki eftir neinni staðlaðri forskrift eða a.m.k. ekki augljósri staðlaðri forskrift. Einhver mál munu vera fyrir dómi þar sem menn hafa ekki viljað una þeim bótum sem í boði voru og talið að um eignaupptöku væri að ræða. Nú hefur hins vegar verið sett reglugerð og þessi reglugerð er miklu þrengri heldur en samningar hafa verið undanfarið. Mér er kunnugt um einn bónda sem búinn er að lenda í því að skera þrisvar niður og nú stendur honum til boða miklu lakari samningur heldur en þeir sem hann hefur búið við fyrr. Það er svo sem gott og blessað að allir sitji við sama borð í þessu efni en það verður að varast að skera svo niður bótaréttinn að menn fari að leyna riðuveikinni eða að reyna að komast hjá því að skera niður. Það má ekki til þess koma.