Aukin verkefni í pósthúsum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:49:21 (4503)

[15:49]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 583 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um aukin verkefni póstþjónustunnar.
    Fyrirspurnin er borin fram hér á Alþingi til að draga fram þá möguleika sem póstþjónustan kann að hafa. Nú þegar allra leiða er leitað til að styrkja byggðina í landinu er nauðsynlegt að skoða þá kosti sem fyrir hendi eru til að halda úti eðlilegri og góðri þjónustu án þess að of miklu sé til kostað. Á það bæði við um daglegan rekstur stofnana og ekki síður kostnað við húsnæði og þann búnað sem hver stofnun, stór og smá, þarf að ráða yfir.
    Póstþjónustan hefur verið byggð upp um allt land. Starfsfólk hennar nýtur trausts og er þjálfað við meðferð verðmætra skjala auk afgreiðslu og margs konar þjónustu á sviði fjármálaumsýslu. Það mætti því ætla að samstarf gæti verið á milli póstþjónustunnar og banka og sparisjóða. Með því mætti fækka bankaútibúum og spara í rekstri bankanna en gera póstþjónustuna hagkvæmari. Til þess að fá fram afstöðu hæstv. samgrh. og póstþjónustunnar í landinu til þessa spyr ég hæstv. samgrh.:
    ,,Hefur verið kannað hvort auka megi hagkvæmni póstþjónustunnar með því að fela henni að sinna frekari opinberri þjónustu í pósthúsum landsins, t.d. með samstarfi við banka og sparisjóði?``