Aukin verkefni í pósthúsum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:51:07 (4504)


[15:51]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Fyrir því er löng hefð að póstþjónustan taki að sér með sérstökum samningum eða henni sé með lögum falin verkefni sem ekki geta í strangasta skilningi talist til almennrar og venjulegrar póstþjónustu. Ástæður þessa eru fyrst og fremst þær að vart hefur nokkurt fyrirtæki eða stofnun, hvort heldur opinber eða einkarekin, yfir svo þéttriðnu, víðtæku og samhæfðu þjónustu- og afgreiðslukerfi að ráða. Á Íslandi eru nú 93 pósthús með sjálfstæða reikningsfærslu, 27 svonefndar bréfhirðingar sem eru nokkurs konar útibú hinna fyrrnefndu og á annað hundrað landpósta í dreifbýli, en þeir eru í reynd akandi pósthús sem veita í stórum dráttum sömu þjónustu og er að fá á pósthúsum. Pósthúsin eru eins og gefur að skilja misstór hvað viðskiptaleg umsvif varðar og starfsmannahald. Einnig fer afgreiðslutíminn að sjálfsögðu eftir aðstæðum hverju sinni. Ljóst er að til þess að auðið sé að halda uppi svo viðamiklu kerfi pósthúsa og þar með virkri og góðri póstþjónustu fyrir landsmenn alla verður að búa svo um hnútana að rekstrargrundvöllur sé viðunandi. Af hálfu Póst- og símamálastofnunar hefur því einskis verið látið ófreistað til að skapa aukin verkefni fyrir pósthús landsins. Markvisst hefur verið unnið að því að bæta gæði póstþjónustunnar ekki síst með bættu skipulagi póstflutninga og hefur það með öðru leitt til aukinna viðskipta.
    Fleira mætti telja. Á pósthúsum fara nú fram nýskráningar og umskráningar bifreiða og þar hafa verið seld spariskírteini og skuldabréf. Nokkuð er síðan pósthús landsins tengdust um gagnaflutningsnet Pósts og síma og brátt verður tölvuvæddur afgreiðslubúnaður hliðstæður því sem gerist í bönkum landsins kominn til sögunnar á svo til öllum pósthúsum. Það mun gera pósthúsunum enn frekar kleift að taka við auknum verkefnum ekki síst fyrir hið opinbera, svo sem útgáfu hvers konar vottorða fyrir sýslumenn og sveitarstjórnir en einnig t.d. sölu aðgöngumiða, farseðla o.s.frv.
    Samkvæmt sérstökum samstarfssamningi frá 1971 hefur verið samstarf milli Póst- og símamálastofnunar og banka og sparisjóða um rekstur sameiginlegrar gíróþjónustu. Með þessu samstarfi má segja að á pósthúsum sé bankaþjónusta að nokkru innt af hendi þar sem fyrir tilstilli hins sameiginlega gírókerfis er unnt að framkvæma innborganir á bankareikninga. Frekari þjónusta í samstarfi við banka og sparisjóði kemur að dómi Pósts- og símamálastofnunar vel til greina og má í því sambandi upplýsa að viðræður um slíkt hafa nú um alllangt skeið farið fram. Svo framarlega sem um eðlilegan samstarfsgrundvöll semst eru engin vandkvæði á því af hálfu Póst- og símamálastofnunar að ganga til slíks samstarfs. Á pósthúsunum er nauðsynlegur búnaður fyrir hendi og starfsfólk póstþjónustunnar vel þjálfað í hvers konar fjármunaumsýslu.
    Það verður hins vegar því miður að taka fram að af einhverjum ástæðum hefur pósthúsum verið meinað að tengjast Reiknistofu bankanna beint sem hefur í för með sér að ekki er hægt vegna dráttarvaxtaútreiknings að taka við innborgunum vegna afborgana af lánum ef komið er fram yfir gjalddaga og ekki heldur að koma við samtímabókun á bankatékkum, en það þýðir að tékkar innleystir á pósthúsum lenda oft aftast í röðinni við uppgjör í lok vinnudags.