Aukin verkefni í pósthúsum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:54:48 (4505)


[15:54]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. samgrh. fyrir ítarlegt svar við þeirri fsp. sem ég bar upp. Í svari hæstv. ráðherra kom mjög greinilega fram að pósthús landsins ættu að geta bætt við sig þjónustu. Þar er öll þekking til staðar og þar er búnaður. Ég fagna því að hér sé upplýst að þessir möguleikar eru fyrir hendi.
    Ég fagna því að það skuli eiga sér stað viðræður á milli banka og póstþjónustunnar um hugsanlegt aukið samstarf og ég vil eindregið hvetja hæstv. samgrh. til að beita sér fyrir því að þarna náist niðurstaða, það náist samkomulag á milli banka og sparisjóða annars vegar og póstþjónustunnar hins vegar um það að pósthúsin geti t.d. tengst Reiknistofu bankanna þannig að þau geti alveg á sama hátt og bankaútibúin veitt viðskiptamönnum sínum þá þjónustu sem þar er um að ræða, bæði með móttöku á greiðslu og móttöku í sambandi við tékkaviðskipti.
    Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka þakkir til hæstv. samgrh. Þetta svar hvetur mig til þess að skoða þetta mál enn frekar og kanna hvaða möguleikar geta verið fyrir okkur hv. þm. að stuðla að því að póstþjónustan taki að sér aukin verkefni.