Rekstur lóranstöðvarinnar að Gufuskálum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:57:04 (4506)


[15:57]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 584 leyfi ég mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um rekstur lóranstöðvarinnar á Gufuskálum.
    Að undanförnu hefur komið fram mikil óánægja meðal sjómanna vegna áforma um að hætta rekstri lóranstöðvarinnar á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Lóran C kerfið hefur um 30 ára skeið þjónað sjófarendum hér við land og er svo komið að fiskiskip við landið nota nær eingöngu lórankerfið, lórantölur, til að staðsetja skipin á fiskimiðunum. Eftir upplýsingum frá Vita- og hafnamálastofnun hafa Danir, Frakkar, Þjóðverjar, Írar, Hollendingar og Norðmenn ákveðið að byggja upp lórankerfi á því svæði sem það nær til á grunni þess gamla kerfis sem Bandaríkjamenn hafa rekið, þ.e. lóran C kerfisins. Þær þjóðir hafa því komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að halda úti lórankerfinu til þess að gæta ýtrasta öryggis fyrir flug og siglingar. Fiskiþing hefur ályktað um þetta mál og lagt áherslu á að lóran C kerfið verði rekið áfram til að tryggja fiskiskipaflotanum fullnægjandi þjónustu og nægjanlegt öryggi. Sjómenn hafa lýst miklum áhyggjum sínum ef lórankerfið verður lagt af og hafa gert grein fyrir því að útgerðir yrðu að leggja í verulegan kostnað til að koma upp nýjum búnaði í skipum sínum til þess að geta nýtt sér hið nýja kerfi, GPS

kerfið, sem gert er ráð fyrir að taka upp.
    Þá er sú hlið sem snýr að starfsmönnum lóranstöðvarinnar, en starfsmenn hennar hafa ekki enn þá fengið neinar upplýsingar um það hvenær þeir eigi að hætta störfum ef lóranstöðin verður lögð niður. Hins vegar hefur borist bréf frá utanrrn. til heilbrigðisyfirvalda og sveitarstjórnar í Neshreppi utan Ennis þess efnis að óskað er eftir upplýsingum um það hvar megi urða það sem þyrfti að urða ef svæðið yrði lagt niður og öll hús og mannvirki brotin til jarðar, eins og gert er ráð fyrir þegar Bandaríkjamenn skilja við þau svæði sem þeir hafa fengið afnot af hér á landi.
    Það er alveg ljóst að á Gufuskálum eru mikil verðmæti bæði í byggingum og öðrum mannvirkjum og að mati flestra algerlega óforsvaranlegt annað en að nýta þessar byggingar, bæði íbúðarhús og önnur mannvirki, ef lóranstöðin verður lögð niður.
    Svo óvissu um þetta mál linni og til þess að fá fram öll rök í málinu hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. í sex liðum:
    1. Hefur verið tekin ákvörðun um að loka lóranstöðinni á Gufuskálum?
    2. Hvernig hyggst ráðherra tryggja sjófarendum þá þjónustu sem lóran C staðsetningarkerfið hefur veitt?
    3. Hvaða svæði innan fiskveiðilögsögunnar verða utan sendinga lóran C kerfisins eftir lokun stöðvarinnar á Gufuskálum?
    4. Hvaða aðgang hafa Íslendingar að GPS-staðsetningarkerfinu nú og hvernig verður því háttað í framtíðinni? Liggja fyrir samningar um afnot af GPS-kerfinu?
    5. Hver er talinn kostnaður skipa af búnaði fyrir GPS-kerfið?
    6. Með hvaða hætti munu mannvirki og búnaður lóranstöðvarinnar á Gufuskálum verða nýtt ef stöðin verður lögð niður?