Rekstur lóranstöðvarinnar að Gufuskálum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:00:48 (4507)


[16:00]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er í fyrsta lagi: Hefur verið tekin ákvörðun um að loka lóranstöðinni á Gufuskálum?
    Svar: Já, íslensk stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að halda ekki áfram rekstri lóranstöðvarinnar þar þegar Bandaríkjamenn hætta fjármögnun hennar í árslok 1994.
    Í öðru lagi: Hvernig hyggst ráðherra tryggja sjófarendum þá þjónustu sem lóran C staðsetningarkerfið hefur veitt?
    Svar: GPS-kerfið mun veita þá þjónustu sem lóran C kerfið hefur veitt. Til þess að auka nákvæmni GPS-kerfisins verða reistar leiðréttingarstöðvar um land allt. Uppbyggingu þeirra verður lokið í árslok 1994.
    Í þriðja lagi: Hvaða svæði innan fiskveiðilögsögunnar verða utan sendinga lóran C kerfisins eftir lokun stöðvarinnar á Gufuskálum?
    Svar: Ákveðin svæði við Vestfirði og Snæfellsnes verða utan við þjónustusvæði lóran C eins og fram kemur á korti sem ég mun afhenda fyrirspyrjanda.
    Í fjórða lagi: Hvaða aðgang hafa Íslendingar að GPS-staðsetningarkerfinu nú og hvernig verður því háttað í framtíðinni? Liggja fyrir samningar um afnot af GPS-kerfinu?
    Svar: Bandarísk stjórnvöld hafa lýst GPS-kerfið opið almenningi til notkunar. Þau hafa einnig lýst því yfir að almenningur fái stöðugan ókeypis aðgang að GPS-kerfinu a.m.k. til ársins 2003. Enn fremur að tilkynnt verði með sex ára fyrirvara verði þeirri tilhögun breytt. Nákvæmni hins almenna hluta kerfisins er innan 100 m.
    NATO hefur samið við Bandaríkin um aðgang að GPS-kerfinu til ársins 2016.
    Í fimmta lagi: Hver er talinn kostnaður skipa af búnaði fyrir GPS-kerfið?
    Svar: Verð búnaðar sem ætlaður er til almennra nota er 70--250 þús. kr. með virðisaukaskatti. Verðið fer eftir gæðum og umfangi búnaðarins. Öll tækin skila þó staðsetningarnákvæmni innan 100 m. Við fisveiðar er stundum krafist meiri nákvæmni en sem nemur 100 m, þess vegna er nú verið að setja upp leiðréttingarkerfi fyrir GPS. Leiðréttingar verða sendar frá sex vitum og munu ná a.m.k. 170 mílur til hafs. Þegar hafa verið settar upp fjórar sendistöðvar en allar sex verða komnar upp seinni hluta ársins. Með leiðréttingarkerfinu verður nákvæmnin innan við 5 m. Verð fyrir viðbótarbúnað sem þarf til viðtöku leiðréttinganna er 60--250 þús. kr. með virðisaukaskatti fyrir hvert skip.
    Í sjötta og síðasta lagi: Með hvaða hætti munu mannvirki og búnaður lóranstöðvarinnar á Gufuskálum verða nýtt ef stöðin verður lögð niður?
    Svar: Ekki hefur verið tekin ákvörðun um nýtingu búnaðar og mannvirkja á Gufuskálum að svo stöddu.