Rekstur lóranstöðvarinnar að Gufuskálum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:05:43 (4509)


[16:05]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir að hreyfa þessu máli. Ég hef efasemdir um að það sé skynsamlegt að loka lóranstöðinni á Gufuskálum. Staðreyndin er að aðrar þjóðir sem hafa verið að taka upp GPS-kerfið ætla flestar ef ekki allar að halda áfram að reka lóranstöðvar, þar á meðal Bandaríkjamenn sjálfir. Helsta vandamál notenda GPS er að ef Bandaríkjamenn lenda í stríðsrekstri þá munu þeir trufla sendingar þannig að nákvæmni kerfisins stórminnkar. Þess vegna ætla aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkjamenn sjálfir að halda áfram að reka sínar lóranstöðvar samhliða GPS.
    Að mati stjórnenda lóranstöðvarinnar á Gufuskálum er hægt að reka stöðina áfram í fimm til sex ár með óbreyttum tækjum. Með því að minnka öryggi sendinganna nokkuð, sem er óhætt ef lóransendingar eru samhliða GPS, nokkurs konar varastöð fyrir GPS, þá gæti rekstrarkostnaður orðið 30--40 millj. á ári. Þegar það virðist blasa við að settar verði 200--300 millj. kr. í að jafna mannvirkin á Gufuskálum við jörðu, eins og nú liggur fyrir, þá tel ég að það eigi að reyna að ná samningum við Bandaríkjamenn um að reka stöðina í nokkur ár í viðbót, t.d. til aldamóta, og að Íslendingar taki þá við mannvirkjum og tækjum á Gufuskálum án skuldbindinga fyrir Bandaríkjamenn.