Frísvæði á Suðurnesjum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:28:28 (4522)


[16:28]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Reykn. beinir til mín nokkrum fyrirspurnum. Í fyrsta lagi hvað líði framkvæmd á tillögum nefndar um undirbúning að stofnun frísvæðis á Suðurnesjum sem ríkisstjórnin samþykkti í apríl sl. Því er til að svara að undirbúningsnefnd hefur haft málið til meðferðar, en sérstakur starfsmaður hefur verið ráðinn í verkefnið. Áætlað er að leggja fram lokatillögur fyrir ríkisstjórnina að stofnun frísvæðis um mitt ár 1994.
    Undirbúningsvinna að stofnun íslenska frísvæðisins hf. samanstendur m.a. af eftirfarandi meginþáttum:
    1. Viðskiptaáætlun fyrir íslenska frísvæðið hf. Ítarleg viðskiptaáætlun hefur þegar verið samin.
    2. Skattalegt umhverfi frísvæðisins. Nefnd á vegum fjmrn. er að vinna að tillögum hvað varðar skattalegar ívilnanir.
    3. Framlag sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Viðræður við samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum eru hafnar. Tilgangur þeirra er að ákveða með hvaða hætti sveitarfélög á Suðurnesjum verði þátttakendur og hvaða starfsskilyrði þau geti boðið upp á fyrir sitt leyti.
    4. Nefna má að þetta tekur til samninga um betri kjör á orku, fjarskiptum, flutningum og fleiru sem er í undirbúningi á vegum embættismanna.
    5. Þá má nefna spurningar um fjármögnun íslenska frísvæðisins hf. en það mál er skammt á veg komið í undirbúningi. Þó er gert ráð fyrir að stefna bæði að opinberri fjárfestingu og einkafjárfestingu.
    6. Loks er þess að geta að þegar málið er komið lengra á veg þurfum við að senda greinargerð til EFTA um þau ákvæði frísvæðisins hf. sem teljast ívilnandi sem eftirlitsstofnun EFTA þarf að samþykkja.
    Önnur spurning hv. þm. er þessi: Hvenær er þess að vænta að Alþingi fái til umfjöllunar frv. til laga er setji frísvæði og fyrirtækjum sem þar starfa skýra réttarstöðu og kjör í sköttum og tollum? Svarið við því er að þótt unnið sé í samræmi við þá fyrirætlun að nefndin afgreiði málið frá sér á miðju ári er óráðlegt að gera ráð fyrir því að nauðsynleg lagafrumvörp verði lögð fyrir Alþingi fyrr en haustið 1994.
    Í þriðja lagi spyr hv. þm. hvenær þess sé að vænta að önnur atriði tillagna nefndarinnar sjáist í framkvæmd og svarið við því er hið sama og við spurningu tvö.

    Þá spyr hv. þm. um samstarf flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli og Sandgerðis við undirbúning frísvæðis á landi í lögsögu Sandgerðis í samræmi við þann undirbúning sem til þessa hefur verið sagður miðast við stofnun frísvæðis innan marka lögsögu Njarðvíkur, Keflavíkur og Gerðahrepps.
    Samstarf flugvallarstjóra og Sandgerðinga er í því fólgið að á 13. fundi samvinnunefndar um skipulagsmál Keflavíkur, Njarðvíkur og Gerðahrepps, Sandgerðis og Keflavíkurflugvallar --- þessi fundur var 23. mars 1993 --- kynntu fulltrúar Sandgerðis formlega tillögur sínar og hugmyndir varðandi breytingu á aðalskipulagi sem samvinnunefndin er að vinna að og síðan var bréfað til utanrrn. 24. mars. Sandgerðingar lögðu áherslu á deiliskipulagningu þjónustukjarna á flugstöðvarsvæðinu. Það var fjallað um málið í skipulags- og byggingarnefnd á varnarsvæðinu í framhaldi af þessu og deiliskipulag flugstöðvarsvæðisins tekið til endurskoðunar. Samráð var haft við Sandgerðinga í samræmi við starfsreglur skipulags- og byggingarnefndar. Niðurstaða umfjöllunar var á þá leið að bætt var inn á gildandi deiliskipulag landsvæði undir fríiðnað. Tillögur um breytt deiliskipulag voru síðan kynntar á 15. fundi samvinnunefndarinnar 21. okt. 1993 og engar athugasemdir þar gerðar við deiliskipulagstillöguna.
    Loks spyr hv. þm.: Eru fleiri aðgreindir aðilar innan ráðuneytisins ellegar í stofnunum sem undir það heyra að undirbúa stofnun fleiri en eins frísvæðis á Suðurnesjum er byggi á nábýli við Keflavíkurflugvöll? Svarið við því er nei. Af þeim stofnunum sem heyra undir ráðuneytið er engin að vinna að undirbúningi að stofnun fleiri en eins frísvæðis á Suðurnesjum.