Atvinnuleysistryggingar

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:41:36 (4528)


[16:41]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við fyrstu fsp. þá vil ég taka fram að það er ekki möguleiki að sjá á einum stað hve margir voru án bóta í janúar vegna þess að þeir voru á 16 vikna bótalausa tímabilinu. Tölvukerfið fyrir sjóðinn er ekki enn komið í gang og því engar slíkar upplýsingar til hjá honum. Það er hins vegar rétt að benda á að nú þurfa í raun engir að vera á slíku bótalausu tímabili vegna þess að gert er ráð fyrir að fólk sæki námskeið og haldi þá atvinnuleysisbótum. Eigi fólk ekki kost á slíkum námskeiðum heldur það bótunum á þessu 16 vikna tímabili.
    Í framhaldi af þessari fsp. verður öllum 123 úthlutunarnefndunum skrifað og óskað svara við því hverjir voru án bóta í janúar, en um er að ræða tvo hópa. Annars vegar þann sem ekki hefur áhuga á að sækja námskeiðin þrátt fyrir að þau séu í boði og hins vegar þann sem neitar að taka þátt í átaksverkefnunum. Starfsmenn Atvinnuleysistryggingasjóðs áætla að það taki um 2--3 vikur að safna saman eða fá þær upplýsingar.
    Varðandi annan tölulið þá hefur sérstaklega verið boðið upp á námskeið á höfuðborgarsvæðinu,

Keflavík, Selfossi, Egilsstöðum, Húsavík, Akureyri, Akranesi og í Borgarnesi og fyrirspurnir hafa borist til Menningar- og fræðslusambands alþýðu frá Hellu, Borgarfirði eystra og Siglufirði um námskeið.
    Samkvæmt upplýsingum frá MFA hafa 10--15% atvinnulausra sótt þau námskeið sem í boði hafa verið. Af þeirri ástæðu hefur ekki af þeirra hálfu enn verið talið raunhæft að bjóða námskeið annars staðar en í stærstu byggðarlögunum og í byggðarlagi eins og Húsavík sem hefur ríka hefð fyrir námskeiðahaldi. Hitt er svo annað mál að ásókn í þessi námskeið fer ört vaxandi. Það er rétt að benda sérstaklega á að þar sem ekki er boðið upp á námskeið fyrir atvinnulausa og þeir eiga sannanlega ekki kost á að sækja námskeið missa þeir því ekki bætur á 16 vikna bótalausa tímabilinu samkvæmt ákvæðum 11. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta.
    Þá er það þriðji töluliður fsp. Frá því í febrúar 1993, þegar farið var af stað með þessi námskeið, hafa 2.793 einstaklingar skráð sig á námskeið, 1.597 konur og 1.196 karlar.
    Og í lokin fjórði töluliðurinn, hvernig hefur verið staðið að kynningu á námskeiðum fyrir atvinnulausa. Menningar- og fræðslusamband alþýðu hefur einu sinni auglýst í Morgunblaðinu. Einnig munu Námsflokkar Reykjavíkur hafa auglýst námskeið í dagblöðum. Einnig hefur MFA kynnt námskeiðin á fundum í Breiðholtskirkju og á Akureyri, auk þess sem fjallað hefur verið um þau í fjölmiðlum. Samkvæmt upplýsingum frá MFA hafa þeir auk þess auglýst námskeiðin með símbréfum til allra vinnumiðlana og skrifstofa stéttarfélaga á höfuðborgarsvæðinu viku áður en skráð er eða þremur vikum áður en námskeiðin hefjast. Utan höfuðborgarsvæðisins hafa heimamenn séð um kynningar og auglýsingar á námskeiðum fyrir atvinnulausa.