Olíuúrgangur

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:08:05 (4539)


[17:08]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir svarið. Það er afskaplega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að það fellur til töluvert mikill úrgangur bæði í olíu og öðru sem þarf að gæta að fari ekki út í náttúruna og spilli henni. Mér sýnist af þeim tölum sem hæstv. ráðherra nefndi að það sé alveg ljóst að það hafa orðið veruleg viðbrögð. Það kemur meira inn af olíu og olíuefnum sem eru ekki nýtt þannig að það er alveg ljóst að þeir aðilar sem eru með olíuúrgang gæta sín betur en áður. En hins vegar var megintilgangur minn með þessari fsp. að vekja athygli á þessu og heyra afstöðu hæstv. umhvrh. til þessara mála og ég hvet hann eindregið til þess að láta fylgjast grannt með því hvernig móttöku á þessum olíuúrgangi er háttað í landinu. Ég óttast það satt að segja að á mjög mörgum svæðum séu menn illa undir það búnir að taka við þessum efnum eins og reglugerðin um mengunarvarnir gerir ráð fyrir. Það held ég að sé alveg nauðsynlegt og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að láta ráðuneytið fylgjast náið með þeim málum.
    Að öðru leyti vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör og vænti þess að hans ágæta ráðuneyti fylgi þessum málum vel og dyggilega eftir.