Olíuúrgangur

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:10:17 (4540)


[17:10]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegur forseti. Ég hygg að það sé nokkur ofrausn hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að þakka mér fyrir skýr svör því gjarnan hefði ég viljað að þau hefðu verið skýrari. Staðreyndin er hins vegar sú að allar þær upplýsingar sem hann hefur óskað eftir liggja ekki fyrir. En það er rétt hjá hv. þm. að það er nauðsynlegt að afla þeirra til þess m.a. að vita hversu mikið umfang vandans er. Og eins og ég gat um í mínu fyrra svari þá eru menn farnir í þá vinnu og fsp. hv. þm. mun væntanlega efla vægið á því.
    Það er líka rétt hjá hv. þm. að viðbrögðunum við þessum vanda hefur verið mætt með vaxandi skilningi hjá þjóðinni vegna þess að það er alveg ljóst að menn eru í ríkari mæli að skila inn úrgangi. Það eru líka komnir upp aðilar sem hafa aukinn hag af því, jafnvel atvinnu af því að safna þessum úrgangi og koma honum fyrir.
    Að því er varðar fsp. hv. þm. Gísla S. Einarssonar þá er það alveg rétt hjá honum að það er flutt inn til landsins talsvert magn olíu til gatnagerðar. Mér er tjáð að þeir sem það gera, til að mynda gatnagerðardeild Reykjavíkurborgar, telji ekki mikla mengunarhættu stafa af því. Að vísu er það svo að nokkuð af því hlýtur óhjákvæmilega að síga niður í jarðveg og valda einhvers konar staðbundinni mengun. Það eru ekki fyrirhugaðar sérstakar rykmælingar á lofti til að kanna þennan vanda sérstaklega. Hins vegar eru í gangi mengunarmælingar á andrúmslofti og má vera að það væri hægt að gera þetta að einum anga þess og má nefna það líka varðandi aðild okkar að EES að þá eru gerðar hertar kröfur einmitt varðandi þetta.
    Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spyr við hvaða lagastoð mengunarvarnareglugerð styðjist. Því er til að svara að hún styðst við gildandi lög. Þær lagabreytingar sem hún gat um hér áðan taka einkum til þriggja atriða, þ.e. að hægt verði að taka tillit til þeirra ákvæða í milliríkjasamningum sem við eigum aðild að og jafnframt um endurskoðun starfsleyfa og varnir gegn stórslysum.