Fráveitumál sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:21:22 (4544)


[17:21]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það að í svari hæstv. umhvrh. kom það raunverulega fram að ekki er búið að taka neinar ákvarðanir og það stendur ekki til neitt á næstunni virðist vera að taka ákvarðanir í þessu efni. Það er rétt að það hafa orðið verulegar tafir á því að sveitarfélögin tækju ákvarðanir um að gera það sem þarf að gera. Við vitum hvers vegna. Það er vegna þess að menn hafa verið að bíða eftir því að hér á hv. Alþingi verði teknar ákvarðanir um það með hvaða hætti eigi að koma til móts við sveitarfélögin í sambandi við fjármögnun á þessum stóru verkefnum. Alþingi er búið að taka ákvarðanir um að Íslendingar gerist aðilar að EES og þá bætast verulega miklar skuldbindingar við í þessu efni frá því sem áður var og voru miklar fyrir og nú bíða sveitarfélögin sem sagt eftir rásmerkinu. Og það er alveg rétt að það hafa orðið tafir en það er fyrst og fremst vegna þess að sveitarfélögin eru að bíða eftir því að það komi grænt ljós á það með hvaða hætti opinberir aðilar ætla að koma til móts við sveitarfélögin með fjármögnun þessara verkefna.