Fráveitumál sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:24:10 (4546)


[17:24]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að mér fannst skorta allverulega mikið á skilning og hlýhug í garð umhvrn. hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssoni. Sé það rétt að umhvrn. sé farið út á hála braut með því að taka að sér að skoða ýmis mál þá er það svo að það er ekki bara umhvrn. heldur ríkisstjórnin öll sem þar er komin út á hált svell vegna þess að þær skoðanir sem hv. þm. sagði að ráðuneytið hefði tekið að sér, það var ekki hægt að skilja mál hans öðruvísi en svo að hann væri að ýja að því að það væri eitthver sérstök ákvörðun núv. eða fyrrv. umhvrh. En staðreyndin er allt önnur. Staðreyndin er sú að umhvrn. er falið að gera þetta með þeirri samstarfsyfirlýsingu sem var samþykkt í upphafi þessa kjörtímabils og sem hv. þm. Sturla Böðvarsson samþykkti í sínum eigin þingflokki. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég er hissa á þessum málflutningi.
    Ég kannast heldur ekki við þá bæklinga sem hv. þm. hefur séð liggja uppi í hillum í umhvrn. Eini bæklingurinn eða eina skýrslan sem ég kannast þar við og tengist þessum málum var að koma núna 17. febrúar. Það er mér sannkallað gleðiefni að fá tækifæri til þess að afhenda hv. þm. þessa skýrslu um fráveitumál á Íslandi eigin hendi vegna þess að ég held að það sé nauðsynlegt sem fyrsta skref að kanna ástandið og sjá með eigin augum hvernig það raunverulega er. Menn verða að vita stöðuna áður en þeir fara í framkvæmdir. Alveg eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson gat um áðan í fyrri fyrirspurn sinni um olíuúrgang, en þá sagði hann nákvæmlega að það væri heppilegt og þarft að vita umfang vandans áður en ráðist er í að vinna bug á honum. Sama gildir um þetta. Svo einfalt er það nú.
    Hafi það verið svo að sveitarfélög hafi hikað við, þá er mér a.m.k. ekki kunnugt um það. Ég þekki ekki þessi viðhorf meðal sveitarstjórnarmanna sem komu fram hér hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni. (Forseti hringir.) Ég hefði getað sagt hér talsvert meira um ýmis atriði sem komu fram í máli Jóhanns Ársælssonar en . . .  ( Gripið fram í: Þú verður bara að gera það seinna.)