Forvarnastarf á sviði áfengis og fíkniefna

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:26:55 (4547)


[17:26]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 579 flyt ég fsp. til hæstv. heilbrrh. um forvarnastarf á sviði áfengis- og fíkniefnamála. Samkvæmt fjárlögum þessa árs er veitt um 368 millj. kr. til áfengis- og fíkniefnamála á vegum þriggja ráðuneyta. Að auki eru framlög til Ríkisspítala vegna rekstrar Gunnarsholts og Vífilsstaðaspítala. Það má því ætla að á þessu ári séu veittar a.m.k. 500 millj. kr. til forvarnastarfs og meðferðar vegna ofnotkunar áfengis og fíkniefna.
    Þrátt fyrir þennan mikla kostnað og fjölmargar stofnanir hopar þjóðin sífellt fyrir víglínu Bakkusar. Í tengslum við Áfengisvarnaráð starfa áfengisvarnanefndir um allt land og flestar þeirra tengjast með starfi sínu grunnskólum landsins vegna bindindismála og stúkustarfs. Þekkt er sú staðreynd að það ríkir ágreiningur milli þeirra hópa sem vinna að bindindismálum og þeirra hópa sem vinna meðferðarstarf vegna áfengisvandans. Ágreiningurinn er grundvallarágreiningur um hvernig vinna skuli forvarnastarf vegna áfengisvandans.
    Þrátt fyrir ágreining um aðferðir verður því ekki á móti mælt að verulegur árangur verður af því starfi m.a. á meðferðarstofnunum. Hins vegar má spyrja þeirra spurninga hvort árangur gæti orðið meiri ef aukin áhersla væri lögð á bindindisstarfið og þá stefnu sem felst í því að auka forvarnir með öflugu starfi innan félagasamtaka, ungmenna og í grunnskólum landsins, e.t.v. undir stjórn og skipulagi Áfengisvarnaráðs. Telja verður eðlilegt að tilraun sé gerð til þess af heilbrrn. að meta árangur af forvörnum og meðferðarstarfi en láta ekki þá eina um það mat sem stofnanir reka. Því leyfi ég mér, virðulegi forseti, að bera upp spurningar í þremur liðum til hæstv. heilbrrh.:
  ,,1. Hve miklir fjármunir voru veittir á vegum ráðuneytisins til forvarnastarfs á sviði áfengis og fíkniefna árin 1990 og 1993?
    2. Með hvaða hætti er metinn árangur þeirra aðila sem starfa að forvarnastarfi á sviði fíkniefnamála og njóta til þess styrks úr ríkissjóði?
    3. Hvernig er háttað samstarfi þeirra sem sinna forvarnastarfi og þeirra sem reka meðferðarstofnanir?``