Varnir gegn útbreiðslu alnæmis

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:48:16 (4553)


[17:48]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur fyrir að bera þessar spurningar fram og einnig þá fræðslu sem við fengum frá hæstv. ráðherra. En mig langaði að spyrja að því hvernig háttað er samstarfi heilbrrn. og landlæknisembættisins og samtaka alnæmissjúklinga og Samtökin '78, sem eru samtök homma og lesbía, en bæði þessi samtök hafa sótt um fjármagn til fjárln. og Alþingis á hverju ári. Miðað við þær 26 millj. sem fara í forvarnastarf á árinu 1993, 26 millj. sem fóru í forvarnastarf á sviði áfengis og vímuefna, þá væri fróðlegt að bera saman þær tölur sem hafa farið í þetta forvarnastarf þar sem ég veit að alnæmissamtökin sem vilja gjarnan taka þátt í þessari fræðslu hafa fengið mjög litlar fjárveitingar á undanförnum árum af safnliðum.