Varnir gegn útbreiðslu alnæmis

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:49:29 (4554)


[17:49]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er greinilega ýmislegt verið að gera og það er mjög gott og mjög nauðsynlegt vegna þess að fórnarlömb þessa alvarlega sjúkdóms er ungt fólk fyrst og fremst. Og ef hægt er að koma í veg fyrir sjúkdóminn er það afar dýrmætt. Og það er hægt. Upplýst var áðan að 26 millj. kr. er varið til forvarnastarfa fyrir þetta ár og ég efast ekki um að þeim peningum er vel varið því hver sjúklingur kostar mikla peninga fyrir utan það tilfinnanlega tjón sem verður af sjúkdómnum.
    Ég ætla aðeins að rifja það upp að þeir sem eru fórnarlömb er fólk á milli 30 og 39 ára í langstærsta hópnum. Það eru 23 einstaklingar sem eru með HIV-veiruna og alnæmi, 10 í þessum aldurshópi. Þannig að það er unga fólkið sem smitast og er komið með alvarleg einkenni á þessum árum.

    En ég tek líka undir með hv. þm. Margrét Frímannsdóttur sem sagði áðan að svolítið vantaði á samvinnuna milli aðila sem eru að vinna að forvarnastörfunum. Mikilvægt er að efla þá samvinnu.