Áfengis- og vímuefnavarnir

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:53:33 (4556)


[17:53]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín á þskj. 598 til hæstv. heilbrrh. er svohljóðandi:
    ,,Hvers vegna hefur frv. til laga um áfengis- og vímuefnavarnir, sem kynnt var á ráðstefnu í nóvember 1991 undir yfirskriftinni ,,Verum vakandi`` og lagt var fram á 115. löggjafarþingi, ekki komið til umræðu á Alþingi?``
    Dagana 29. og 30. nóv. 1991 var mikil ráðstefna á vegum heilbr.- og trmrn. um mótun framtíðarstefnu í vímuefnavörnum undir heitinu ,,Verum vakandi``. Þessi ráðstefna var gríðarlega vel sótt og vönduð í alla staði. Þessi ráðstefna vakti nokkrar vonir því þá var kynnt efnismikið frv. til laga um áfengis- og vímuefnavarnir. Þetta sama frv. var síðan lagt fram á 115. löggjafarþingi en var aldrei rætt. Síðan ekki söguna meir, nema hvað árlega hefur verið dregið verulega úr því fjármagni sem ætlað er til áfengis- og vímuefnameðferðar. Það virðist því vera eina stefnumörkunin hjá hæstv. ríkisstjórn að draga úr meðferðartilboðum en enginn vísir til nýrra átaka í forvarnastarfi, en forvarnastarf er áhrifamesta og ódýrasta leiðin.
    Í dag er ætlað að 19.000 vímuefnaneytendur séu í landinu. Áætlað er að 28.000 íslensk börn séu að alast upp í alkóhólískum fjölskyldum. Í veröld óvissu, hraða og spennu, þar sem einstaklingar eru undir stöðugri áreitni, þarf vel skipulagt forvarnastarf. Því er það spurning mín til hæstv. heilbrrh.: Hyggst hann ekki leggja fram frv. til laga um áfengis- og vímuefnavarnir eins og fyrirheit voru gefin um í upphafi kjörtímabilsins?