Eftirlit með pappírslausum viðskiptum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 18:04:56 (4561)


[18:04]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að pappírslaus viðskipti eru mikilvægt framfaraskref í viðskiptum. Ég vil hvetja til þess að áfram verði haldið þróun slíkra viðskipta hér á landi. Í gildandi bókhaldslögum svo og í skattalögum, þar með talið lögum um virðisaukaskatt, er gengið út frá því að öll gögn sem bókað er eftir séu úr pappír eða áþreifanleg. Þróunin í bókhaldsmálum sem nú er að ryðja sér til rúms er að nýta möguleika tölvusamskipta og hverfa að einhverju leyti frá pappírsviðskiptum til upplýsingaskipta milli tölva.
    Að því er ég best veit hefur ekkert sérstakt eftirlit verið af hálfu skattyfirvalda með pappírslausum viðskiptum. En þar fara fyrir tollstjóraembættin varðandi tollskjöl svo og nokkur innflutningsfyrirtæki, bæði varðandi pantanir sem þau gera erlendis og pantanir frá smásölum til þeirra.
    Pappírslaus viðskipti byggjast á tvíhliða samningum milli viðkomandi aðila þannig að ekki getur hver sem er gengið inn í þennan viðskiptamáta. Þar sem endurskoðun bókhaldslaganna stendur yfir, en hún tekur m.a. til þessara atriða, tel ég að skattyfirvöld geri ekki ágreining vegna þessara viðskiptahátta svo fremi sem þau sjá að viðskipti fari eftir þeim samskiptareglum milli aðila sem EDI-félagið hefur beitt sér fyrir.
    Eins og ég sagði er unnið að endurskoðun laga um bókhald. Nefnd sem að því starfar vinnur m.a. að endurskoðun þessara ákvæða í bókhaldslögum með það í huga að samþykkja að pappírslaus viðskipti verði viðurkennd sem réttmæt skráning viðskipta. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á að það ber brýna nauðsyn til að yfirvöld, helst skattyfirvöld, taki að sér endurskoðun á hinum ýmsu tölvuforritum sem notuð eru við bókhald fyrirtækja, þar með töldum endurskoðun á kerfum pappírslausra viðskipta. Ég nefni í þessu sambandi að eitt rannsóknarmál af þessu tagi hefur í framhaldi af rannsókn skattrannsóknastjóra komið til kasta dómstóla vegna misbeitingar tölvuforrits við færslu bókhalds.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að það er kannski ekki beinlínis bundið við pappírslausu viðskiptin sem þarf að efla eftirlit skattyfirvalda heldur einnig þar sem um er að ræða forrit, t.d. forrit vegna virðisaukaskatts, því auðvitað er hægt ef menn vilja að breyta forritum þannig að þau uppfylli ekki gildandi lagaákvæði.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara mörgum fleiri orðum um þetta. Það er ljóst að eftirlit og endurskoðun með pappírslausum viðskiptum er tengjast skattskyldum viðskiptum og þjónustu er ekki nú með þeim hætti sem best verður á kosið og það má búast við að á næstu vikum og mánuðum verði mótaðar reglur um slík viðskipti á meðan þau þróast enda er erfitt að færa í lög ákvæði áður en menn sjá hvernig þróunin verður. Aðalatriði málsins er hins vegar það að pappírslaus viðskipti verða ekki til nema með samþykki beggja þegar um tvo aðila er að ræða og opinberir aðilar munu velja úr þau fyrirtæki sem uppfylla viss skilyrði í þeim efnum.
    Ég vil svo að lokum segja frá því að frá því er gengið eins tryggilega eins og hægt er að ,,skjöl`` séu geymd í pappírslausum viðskiptum og þess vegna ætti að vera tiltölulega auðvelt að endurskoða slík skjöl sem þá eru á hörðum diskum eða á segulbandi.