Löggilding tölvukerfa

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 18:20:40 (4566)


[18:20]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa ræðu hans og ábendingar sem komu fram hjá honum. Ekki síður þakka ég honum þann áhuga sem hann sýnir á þessum málum og þau orð sem hann lét falla í minn garð í fyrri umræðu um fyrri fsp. sína í dag.
    Það er mjög fátítt að um þessi mál sé spurt á hinu háa Alþingi og ég skal viðurkenna að ég er ekki sérfræðingur í því efni sem ég er hér að svara. Það liggja þó nokkrir milljarðar líklega í tölvubúnaði ríkisins og rekstri þess. Þess vegna eðlilegt að menn vandi sig mjög þegar þeir eru að velja búnað og mér finnst vel koma til greina að það verði kannað hvort setja skuli lög sem miða að því að tryggja það að búnaðurinn sé prófaður rétt.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að ráðuneytið hefur stuðst við og byggt á stöðluðum prófum og alþjóðlegum stöðlum í þessu efni. Hugmyndin var og er sú að setja um þetta fastar reglur. Hvort hins vegar á innan tíðar eða síðar meir að setja slíkar reglur í lög verður tíminn að leiða í ljós. En vegna hvatningar þingmannsins tel ég eðlilegt að menn skoði það þegar þessar reglur verða útbúnar.