Dýravernd

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 13:34:21 (4567)


[13:34]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhvn. um frv. til laga um dýravernd sem er á þskj. 620 og brtt. á þskj. 621.
    Nefndin hefur lagt mikla vinnu í að yfirfara frv. sem lagt var fram á 115. og 116. löggjafarþingi í nokkuð annarri mynd en hlaut ekki afgreiðslu þá. Fyrir nefndinni lá því að vinna úr fjölda umsagna frá þremur þingum auk þess sem margir gestir komu á fund nefndarinnar vegna málsins. Þá var aflað upplýsinga í landbrn. um ýmis álitaefni varðandi meðferð búfjár og stuðst var við álitsgerð frá Eiríki Tómassyni hæstaréttarlögmanni, einkum varðandi 20. gr. frv. sem fjallar um þær aðgerðir sem yfirvöld geta gripið til þegar meðferð dýra er talin ábótavant. Mun ég reifa helstu breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á frv. en eins og brtt. bera með sér eru þær allmiklar.
    Tekin var sú stefna að birta þær greinar sem taka verulegum breytingum í heild til að þingmenn fengju af þeim gleggri mynd. Menn geta að sjálfsögðu velt því fyrir sér hvernig best er að leggja málin fyrir þegar þingnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að breyta verði framlögðum frumvörpum að verulegu leyti og jafnvel í grundvallaratriðum. Þeirri spurningu skal ekki svarað hér en væri þess virði að skoða í ljósi þingskapa.
    Eftir ítarlega athugun og umræður er lagt til að lög um dýravernd taki til allra dýra en ekki einungis til hryggdýra eins og frv. gerir ráð fyrir. Meðal þeirra sem mæltu með þessari breytingu eru yfirdýralæknir, Læknafélag Íslands, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, Dýralæknafélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands. Nefndin telur eðlilegt að löggjöfin taki til allra dýra enda þótt augljóst sé að ekki sé bókstaflega hægt að uppfylla öll ákvæði laganna gagnvart öllum dýrum. Í því sambandi má nefna ýmsa hryggleysingja, svo sem sníkjudýr sem lifa á öðrum lífverum. Taugakerfi dýra er mjög misþróað og eru lægri hryggleysingjar með einfalt og tiltölulega einhæft taugakerfi þó uppbygging tauga sé sú sama hjá öllum. Þannig virka taugar smokkfisks á nákvæmlega sama hátt og taugar hryggdýra. Hins vegar hafa dýr misvel þróaðan heila og er því ekki hægt að tala um tilfinningu og skynjun á sama hátt og maðurinn upplifir slíkt þegar svokölluð lægri dýr eiga í hlut. Ánamaðkur sem þræddur er upp á öngul finnur ekki til í þeim skilningi sem maðurinn leggur í það hugtak.
    Þótt lög um dýravernd væru aðeins látin ná til hryggdýra, eins og frv. gerir ráð fyrir, hefðu eftir sem áður komið upp ýmis álitamál. Má í því sambandi nefna aðferð við fiskveiðar sem ekki eru að sumra mati óumdeildar.
    Umhvn. leggur áherslu á þann siðferðislega boðskap sem í lögunum felst og eðlilegt er að taki til umgengni við öll dýr. Nefndin leggur einnig til breytingar á 2. gr. frv. Lagt er til að ákvæði sem er í 7. gr. frv. verði flutt í þessa grein þar sem kveðið er á um ýmis grundvallaratriði í umgengni við dýr og þykir rétt að þau séu í sömu greininni. Gilda sömu röksemdir og að framan voru raktar um þessa grein, bæði að því er varðar þann siðferðisboðskap sem lögunum er ætlað að hafa, sem og þær takmarkanir sem slík ákvæði óhjákvæmilega hafa. Þessar breytingar eru ekki efnislegar. Þeim er ætlað að stuðla að gleggri uppbyggingu laganna. Í frv. ber nokkuð á því að sömu atriðin séu endurtekin í fleiri en einu ákvæði án sýnilegra röksemda. Breytingarnar skýra sig að öðru leyti sjálfar. Af sama toga eru ýmsar málfarsbreytingar sem lagðar eru til m.a. að því er varðar notkun nokkurra hugtaka til þess að gera þau skýrari og samræma þau.
    Varðandi breytingar sem lagðar eru til á 3. og 4. gr. frv. er rétt að benda sérstaklega á að nefndarmenn ræddu hugtakið ,,tæknivætt stórbú`` sem ekki hefur verið skilgreint í löggjöf hér á landi, t.d. hvort kúabú félli undir skilgreininguna. Í Noregi hefur hugtakið verið skilgreint út frá tilteknum fjölda búfjár og samkvæmt því geta stór kúabú fallið undir skilgreininguna. Á hinn bóginn er hugtakið stundum notað yfir bú sem eru svo tæknivædd að mannshöndin kemur lítið nærri við daglega umönnun búfjárins. Slíkar skilgreiningar eru hliðstæðar þeirri skilgreiningu sem felst í enska hugtakinu ,,intensive farming`` en það hugtak vísar til þess að um sé að ræða búskap sem hefur mikla framleiðni að markmiði, þ.e. sem mesta framleiðslu afurða á sem stystum tíma. Umhvn. tekur ekki afstöðu til þessa atriðis en telur æskilegt að landbrn. og umhvrn. skilgreini í reglugerð hvað átt sé við með hugtakinu tæknivætt stórbú þannig að ákvæði dýraverndarlaga fái skýrari merkingu.
    Þær breytingar sem lagðar eru til við 5. gr. eru m.a. af málfarslegum toga. Nefndarmenn voru sammála um að orðin ,,að halda til beitar`` og ,,láta liggja við opið`` næðu yfir það sem í daglegu tali er kallað útigangur. Lagt er til að sveitarstjórnum sé heimilað að banna dýrahald á tilteknum stöðum að vetri til ef hætta er talin á að ekki verði unnt að búa nægilega vel að dýrum þar. Nefna má sérstaklega í þessu sambandi eyðisveitir og eyjar úti fyrir ströndum landsins.
    Hafa ber í huga að illviðri geta komið hér á hvaða árstíma sem er og að búfé er misjafnlega undir það búið. Þannig má nefna að hross í vetrarhárum geta þrifist mjög vel í vetrarveðrum en líðan þeirra getur á hinn bóginn verið slæm í vætutíð á vori eða jafnvel í hretum að sumri til. Í greininni er talað um að sjá þurfi til þess að á staðnum sé húsaskjól eða annað hentugt skjól í öllum veðrum. Þar getur verið um að ræða öruggt afdrep sem jafnvel getur verið klettabyrgi, skútar eða annað frá náttúrunnar hendi.
    Nefndin leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á 10. gr. Ekki þykir unnt að skylda menn afdráttarlaust til að deyða sjúkt eða lemstrað dýr sem þeir kunna að koma að. Ýmsar ástæður, þar á meðal siðferðilegar, kunna að torvelda mönnum að grípa í taumana með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.
    Verulegar breytingar eru lagðar til við 11. gr. Orðinu ,,villast`` í frv. er talið ofaukið þar eð ekki er hægt að gera sér grein fyrir hvort dýr er að villast eða strjúka úr haldi.
    Þá er lagt til að hér og á fleiri stöðum í frv. verði orðið ,,lögregla`` notað í stað ,,löggæsla``. Orðið löggæsla hefur enga lagalega merkingu en er notað sem samheiti yfir starfsemi lögreglu. Þá er lagt til að styttur verði sá tími í eina viku sem lögreglu ber að geyma dýr sem tekin eru í vörslu, enda þykja 10 dagar óþarflega langur tími. Athugasemdir bárust í þessa veru frá heilbrigðisyfirvöldum nokkurra sveitarfélaga.
    Þá er lagt til að felld verði brott úr frv. skylda lögreglu til að auglýsa dýr þar eð gera verður ráð fyrir að sá er saknar dýrs haldi uppi spurnum um það. Hér er fyrst og fremst um gæludýr að ræða. Um búfé gilda sérstök lög að þessu leyti.
    Lagt er til að í 12. gr. verði kveðið á um að umhvrh. hafi samráð við yfirdýralækni um setningu reglugerðar um flutning á dýrum. Slíkt samráð er einnig lagt til varðandi önnur atriði sem varðað geta búfé. Auk þess má benda á að í gildi eru reglugerðir um flutning á dýrum sem samdar hafa verið í samráði við yfirdýralækni auk þess sem hann hefur umsjón með að framfylgt sé hér á landi Evrópusamningi sem fjallar m.a. um þetta efni.
    Þær breytingar sem lagðar eru til við 13. gr. eru einkum til einföldunar og ætlað að gera ákvæði skýrara. Orðinu ,,sérstakt`` er talið ofaukið. Lagt er til að fella brott ákvæði um að óheimilt sé að temja dýr til sýnis almenningi eða taka af þeim kvikmyndir ef það veldur þeim sársauka eða ótta. Um þetta gilda almenn ákvæði um meðferð dýra, samanber m.a. 2. gr. frv. Þá leggur nefndin áherslu á að enda þótt umhvrh. geti í undantekningartilvikum leyft dýrahappdrætti, þá nái slíkt leyfi ekki til gæludýrahappdrættis þar sem dýr geta komið í hlut einstaklinga sem hvorki hafa áhuga né getu til að halda dýr.
    Lagt er til að 14. gr. verði breytt þannig að aðrir en dýralæknar geti framkvæmt minni háttar aðgerðir á dýrum og lyfjameðferð að höfðu samráði við yfirdýralækni. Þessi breyting er í samræmi við tillögur nokkurra umsagnaraðila, þar á meðal yfirdýralæknis. Í 3. mgr. 14. gr. frv. er kveðið á um að umhvrh. setji reglugerð um aðgerðir sem gera má á dýrum án læknisfræðilegra ástæðna. Nefndin gerir tillögu um að í reglugerð verði kveðið á um takmarkanir á slíkum aðgerðum, svo og lyfjameðferð sem áhrif getur haft á útlit dýra. Þá leggur nefndin áherslu á að ekki verði sett í reglugerð á grundvelli laga þessara ákvæði um erfðatæknilegar aðgerðir á dýrum og notkun hormóna eða annarra efna til að hafa áhrif á eiginleika dýra með öðrum hætti en að framan greinir.
    Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta þar sem í athugasemdum við 14. gr. frv. segir að í reglugerð eigi að setja fyrirmæli um erfðatæknilegar aðgerðir á dýrum og notkun hormóna eða annarra efna sem ætlað er að hafa áhrif á eiginleika dýra í öðrum tilgangi en að fyrirbyggja eða lækna sjúkdóma. Tekið skal fram að frjósemisaðgerðir og notkun hormóna til að hafa áhrif á frjósemi telst hins vegar til læknisaðgerða skv. 1. mgr. 14. gr.
    Breyting er lögð til varðandi skipan tilraunadýranefndar í 17. gr. frv. Nefndin telur mikilvægt að tilraunadýranefnd sé skipuð sérfróðum mönnum eins og tekið er fram í athugasemdum við frv. Á hinn bóginn er ekki talið rétt að binda í lög að forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum eigi sæti í nefndinni heldur verði ákvæðið víðtækara þannig að einnig komi til greina að skipa fólk sem hefur próf frá háskóla og reynslu og þekkingu á dýratilraunum, svo sem þá sem starfa eða hafa starfað við læknadeild eða raunvísindadeild Háskóla Íslands eða sambærilegar rannsóknastofnanir.
    Í umræðum nefndarinnar kom upp hugmynd um skipun fimm manna nefndar en niðurstaðan varð sú að þriggja manna nefnd yrði virkari. Þá vill umhvn. leggja áherslu á að tilraunadýranefnd hafi við mat á umsögnum í huga ákvæði nýrra stjórnsýslulaga um hraða málsmeðferð.
    Þá er lagt til að gerð verði krafa um að þeir sem noti dýr í tilraunaskyni hafi hlotið til þess þjálfun og menntun en ekki verði látið nægja að krefjast þess að þeir hafi fengið upplýsingar á því sviði sem hér um ræðir eins og frv. gerði ráð fyrir að látið yrði nægja. Með orðinu ,,menntun`` er ekki verið að vísa til þess að viðkomandi hafi sérfræðimenntun í meðferð tilraunadýra heldur menntun á sviði líffræði sem nýst geti í starfinu. Ég tek eftir því að niður hefur fallið við frágang brtt. smávægileg orðalagsbreyting á 5. mgr. 17. gr. sem átti að gera hana skýrari. Nefndinni þótti rétt að 5. mgr. hljóðaði svo:
    ,,Einungis má nota lifandi dýr í tilraunum ef ekki eru þekktar aðrar leiðir til að ná sambærilegum árangri.``
    Ég tel að þetta megi lagfæra við 3. umr. málsins. Hér er eingöngu um orðalagsbreytingu að ræða en mun verða heldur skýrara.
    Þá erum við komin að einni meginbreytingu sem umhvn. leggur til að gerð verði á frv. Nefndin telur ekki þörf á að setja á fót dýraverndarnefndir eins og frv. gerir ráð fyrir. Nefndin telur að dýraverndarráð eigi að hafa með höndum eftirlit með framkvæmd laganna og geti hafist handa að eigin frumkvæði. Nefndin telur eðlilegt að dýraverndarráð annist þetta hlutverk ásamt lögreglu og héraðsdýralækni og um leið beri að efla starfsemi ráðsins. Umhvn. leggur áherslu á mikilvægi hlutverks héraðsdýralækna sem tengiliða dýraverndarráðs um allt land. Almenningur og dýraverndarfélög hafa jafnframt mikilvægu hlutverki gegna við að koma ábendingum á framfæri við rétta aðila.
    Lagt er til að 20. gr. frv. verði breytt að verulegu leyti. Breytingarnar lúta einkum að því að tryggja rétt eigenda betur en frv. gerði ráð fyrir en að hluta til þarf að gera breytingar vegna breytinga á 18. og 19. gr. Lagðar eru til breytingar m.a. til samræmis við lög nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og einnig til samræmis við 66. gr. stjórnarskrárinnar og túlkunar á henni. 66. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Heimilið er friðheilagt. Ekki má gera húsleit né kyrrsetja bréf og önnur skjöl og rannsaka þau nema eftir dómsúrskurði eða eftir sérstakri lagaheimild.``
    Þetta stjórnarskrárákvæði hefur verið skýrt þannig að það nái ekki einungis til íbúðarhúsnæðis heldur einnig atvinnuhúsnæðis, farartækja og fleira.
    Í stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson segir á bls. 436, með leyfi forseta, varðandi þetta atriði:
    ,,Spurning gæti verið við hvað sé átt með orðinu húsleit. Ef það væri skilið í samræmi við upphaf greinarinnar mundi það einungis eiga við leit í íbúðarhúsum. Svo hefur greinin samt eigi verið skilin. Það er manni ekki síður tilfinnanlegt að leit sé gerð í skrifstofu hans, verslunarhúsnæði, verkstæði, fjárhúsi, verkfærageymslu, bílskúr og þess háttar heldur en þar sem hann sjálfur býr, enda er talið að húsleit taki til alls þessa. Sama máli gegni um skip og önnur farartæki, svo sem bifreiðar og flugvélar, svo að sams konar heimildar er talin þörf til leitar í þeim og í húsi, . . . ``
    Nefndin taldi rétt að gera breytingar í samræmi við túlkun Ólafs Jóhannessonar á 66. gr. og annarra fræðimanna sem um hana hafa fjallað.
    Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um eftirlitshlutverk lögreglu varðandi dýraverndarlög og vill umhvn. með því leggja áherslu á mikilvægi hennar í því að framfylgja þessum lögum. Það er í samræmi

við önnur lög að lögregla sinni þessu verkefni, en þó í samvinnu við héraðsdýralækna og dýraverndarráð. Eðlilegast er talið að lögreglustjóri einn geti lagt fyrir eiganda eða umsjónarmann að gera úrbætur innan tiltekins tíma. Önnur tilhögun gæti valdið erfiðleikum í framkvæmd.
    Þá er talið eðlilegt að gefinn sé kostur á að setja tryggingu fyrir geymslu til að koma í veg fyrir að dýr verði t.d. seld öðrum eða aflífuð að ófyrirsynju sé það á annað borð mögulegt. Þá er lagt til að orðið ,,stjórnsýsluumdæmi`` verði notað í stað orðsins ,,lögsagnarumdæmi`` í samræmi við 11. gr. laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Að öðru leyti eru þær breytingar sem gerðar eru á ákvæðinu í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála og um aðför.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru einkum orðalagsbreytingar og breytingar á framsetningu og ætlaðar að gera frv. skýrara. Þannig er lagt til að stuðst verði við hugtökin ,,reglugerðir`` og ,,stjórnvaldsfyrirmæli`` bæði til að gæta samræmis innbyrðis og við stjórnsýslulög.
    Loks er lagt til að kveðið verði á um tiltekinn dag sem gildistíma en það þykir betra til glöggvunar.
    Allir nefndarmenn í umhvn. standa að þeim brtt. sem hér hafa verið kynntar og eru á þskj. 621 og á nál. á þskj. 620.
    Ég vil að lokum þakka öllum í umhvn. mikla þolinmæði við vinnu að þessu frv. og þeim mörgu sem til var leitað um meðferð málsins. Sérstakar þakkir vil ég færa Ragnhildi Arnljótsdóttur, ritara nefndarinnar, fyrir hennar þátt.