Dýravernd

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 14:05:47 (4571)


[14:05]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að sjálfsagt finna nýfædd lömb einnig til en hins vegar er það staðreynd að taugar í eyrum nýfæddra lamba og margra annarra dýra, það gildir um kanínur og ýmis fleiri dýr, vaxa reyndar fram eftir að dýrin eru fædd og taugakerfið þróast og reyndar blóðrásakerfið líka eftir því sem dýrin vaxa og þroskast. Það er því munur á því varðandi sum dýr hvort eyrun eru mjög fullkomin þegar dýrin fæðast. Varðandi t.d. lömb er næstum því öruggt að það finnur minna til, ég hugsa að það sé rétt að það finni eitthvað til eins og þingmaðurinn minntist á, en það er miklu minni sársauki sem í því felst þegar taugakerfið er ekki eins þróað og þegar skepnurnar eru orðnar eldri. Það var einungis það sem ég vildi koma á framfæri.