Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 14:08:07 (4574)


[14:08]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum. Frv. er að finna á þskj. 362 og er 285. mál þingsins.
    Þetta frv. er flutt vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið svo íslenska ríkið geti staðið við þær þjóðréttarlegu skyldur sem samningurinn leggur á herðar þess. Frv. var raunar lagt fram á 116. löggjafarþinginu en varð ekki afgreitt þá. Nú er frv. hins vegar lagt fram að nýju og það hafa lítils háttar breytingar verið gerðar á því sem ég mun gera grein fyrir síðar í framsögu minni.
    Frv. er einungis tvær greinar. Í 1. gr. þess er lögð til breyting á 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og í 2. gr. frv. er að finna gildistökuákvæði.
    Í 74. gr. EES-samningsins er vísað til viðauka sem merktur er XX en í honum eru sérstök ákvæði um verndarráðstafanir sem skulu gilda skv. 73. gr. samningsins. Verndarráðstafanirnar eru byggðar á mikilvægustu meginreglum umhverfisréttarins, þ.e. meginreglunni um að girt skuli fyrir umhverfisspjöll, að áhersla sé lögð á úrbætur þar sem tjón á upphaf sitt, að bótaskyldan sé lögð á þann sem veldur mengun og að umhverfið sé varðveitt, verndað og bætt.
    Í þessum tilvitnaða viðauka EES-samningsins er að finna tilskipanir sem varða mengunarmál, t.d. um varnir gegn mengun vatns, viðmiðunarmörk vegna mengandi efna og jafnframt um gæði viðtaka.
    Ákvæði þessara tilskipana þarf að setja í mengunarvarnareglugerð. Það þykir nauðsynlegt að styrkja reglugerðarheimild 3. gr. laganna nr. 81/1988 svo hægt verði að fjalla um efni þessara tilskipana í reglugerðum sem verða settar með stoð í tilvitnaðri grein laganna. Þess má geta hér að hinn 27. jan. sl. var gefin út endurskoðuð mengunarvarnareglugerð þar sem birt eru ákvæði þeirra tilskipana þar sem reglugerðarheimildir voru taldar vera fyrir hendi. Með þeirri breytingu sem lögð er til nú er lagður grunnur að því að taka öll ákvæði tilskipana í viðauka, sem merktur er XX, inn í mengunarvarnareglugerð, þ.e. þeirra sem ekki hafa verið sett sérstök lög um og aðrar reglugerðir sem settar verða með stoð í 3. gr. laga. Það er gert ráð fyrir því að þau ákvæði tilskipana sem enn hafa ekki verið sett í reglugerðir verði birt þegar að fengnu samþykki þessa frv. Sérstök athygli er vakin á því að í reglugerðinni sem gefin var út í janúar sl. er ákvæði til bráðabirgða sem segir að reglugerðin skuli endurskoðuð fyrir 1. júlí nk. og hugsunin var sú að endurskoða reglugerðina á nýjan leik þegar frv. yrði að lögum.
    Ég mun nú, virðulegur forseti, víkja nánar að þeim breytingum sem frv. hefur í för með sér.
    Í fyrsta lagi er lagt til að vísun til alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að verði bætt við 1. mgr. 3. gr. Þetta er einkum gert til þess að styrkja grundvöll reglugerðarheimildarinnar eins og ég vék að fyrr. Þetta þýðir að rúmist ákvæði nýrra alþjóðasamninga eða tilskipana á EES-svæðinu eða breytingar þar á innan laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit þá megi taka þær upp í reglugerð.
    Í öðru lagi er nýjum tölul. bætt við 2. mgr. 3. gr. um endurskoðun starfsleyfa. Í nokkrum þeirra tilskipana sem eru taldar upp í XX. viðauka við EES-samninginn eru ákvæði þess efnis að starfsleyfi skuli endurskoðuð ef verulegar breytingar verða á starfsemi fyrirtækja eða vegna tækniþróunar. Þessi breyting þykir líka nauðsynleg burt séð frá aðild Íslands að EES-samningnum.
    Á síðustu árum hefur starfsleyfum fjölgað verulega, ekki síst í kjölfar aukinna krafna um mengunarvarnir fyrirtækja og um virkara eftirlit með þeim og innan þeirra. Til skamms tíma voru hins vegar starfsleyfin gefin út til ótiltekins tíma og án þess að í þeim væru sérstök ákvæði um endurskoðun. Þess vegna er það svo, virðulegi forseti, að í mörgum gildandi starfsleyfum eru engar heimildir til endurskoðunar en það hlýtur að teljast eðlilegt að það sé hægt að endurskoða starfsleyfin verði veruleg breyting á starfsemi fyrirtækjanna eða ef til kemur ný tækni sem e.t.v. gerir það kleift að reka þessi fyrirtæki með minni mengun.

    Í þriðja lagi er jafnframt lagt til að nýjum tölulið verði bætt við 2. mgr. 3. gr. um áhættumat vegna tilskipunar nr. 82/501/EBE, um hættu á stórslysum í tengslum við tiltekna atvinnustarfsemi. Tilgangur þessarar tilskipunar er að koma í veg fyrir stórslys og umhverfisskaða hjá fyrirtækjum sem hafa með höndum ákveðna starfsemi. Þessari tilskipun fylgja viðaukar þar sem skilgreindar eru aðferðir og talin upp efni sem eru notuð við þá starfsemi sem fellur undir þetta og viðaukarnir marka í rauninni gildissvið hennar. Í tilskipuninni er enn fremur kveðið á um að rekstraraðilar iðnaðarstarfsemi sem þessar reglur gilda um verði að veita ítarlegar upplýsingar um starfsemina og skilgreina hættu á meiri háttar óhöppum með tilliti til framleiðsluaðferða, notkunar hættulegra efna svo og geymslu þeirra ásamt lýsingu á öllum aðstæðum. Þess má geta að samkvæmt þeim viðmiðunum sem eru settar fram í umræddri tilskipun þá er líklegt að aðeins eitt íslenskt fyrirtæki falli undir þetta ákvæði. Má geta þess hér að umhvrn. hefur skipað nefnd til að semja reglugerð til að uppfylla þessar samningsskuldbindingar.
    Í fjórða lagi er lagt til að hugtök verði samræmd og að hugtakið ,,viðmiðunarmark`` verði notað í stað ,,viðmiðunarreglna`` og hugtakið ,,loftgæði`` í stað ,,loftmengunar``. Þessa breytingu er að finna í 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. Sömuleiðis er lagt til að við 4. tölul. sömu málsgreinar verði bætt ákvæðum um viðmiðunarmörk vegna losunar tiltekinna efna að því er varðar gæði vatns. En eins og 4. tölul. er nú orðaður er einungis fjallað um meðferð vatns og sjávar í iðnaði en ekki vísað til viðmiðunarmarka. Hér er ekki um efnisbreytingar að ræða heldur fyrst og fremst verið að innleiða hugtök sem hafa verið notuð.
    Í fimmta lagi er lagt til að bætt verði við 6. tölul. ákvæðum um hreinsun skolps og viðmiðunarmörk en í gildandi lögum er vísað til ákvæða um frárennsli og skolp. Þó augljóst sé að helstu ákvæði í mengunarvarnareglugerðum um frárennsli og skolp fjalla að sjálfsögðu fyrst og fremst um hreinsun þess og viðmiðunarmörk hreinsunarinnar þá þykir rétt að gera þessa breytingu til samræmis við ákvæði tilskipunar um hreinsun skolps frá þéttbýli sem er hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Að lokum og í sjötta lagi er gerð sú breyting frá frv. sem var lagt fram á 116. löggjafarþingi að nýjum tölulið, tölul. 9, er bætt við. Hann fjallar um varnir gegn vatnsmengun þar sem m.a. viðmiðunarmörk og/eða gæðamarkmið fyrir vatn eiga að koma fram. Í þeim lögum sem nú gilda er hins vegar einungis fjallað um meðferð vatns og sjávar í iðnaði. Þau ákvæði um varnir í vatnsmengun sem eru hluti af umræddum samningi tengjast að mestu leyti iðnaði.
    Að öðru leyti er 3. gr. laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit óbreytt nema hvað númer einstakra töluliða breytast í samræmi við það sem ég hef sagt hér að framan.
    Í 2. gr. frv. er lagt til að lögin taki þegar gildi því að eins og kom fram í máli mínu hér í upphafi eru þessar breytingar gerðar vegna gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Verði frv. þetta að lögum þá er hægt að halda áfram endurskoðun mengunarvarnareglugerðar, sbr. ákvæði til bráðabirgða sem í henni er að finna.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv. umhvn.