Mengunarvarnarbúnaður í bifreiðar ríkisins

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 15:21:37 (4584)


[15:21]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er flutt þáltill. tveggja hv. þm. þar sem gert er ráð fyrir að Alþingi feli umhvrh. að beita sér fyrir því að allar bifreiðar í eigu ríkisins verði búnar sérstökum búnaði sem ekki bara spari eldsneyti heldur líka dragi verulega úr mengun.
    Nú er það svo að jafnvel hér á hinu ósnortna Íslandi, sem menn hafa jafnan litið svo á að væri svo að segja laust við mengun, þá hefur vandi sprottið vegna útblásturs bifreiða. Það er rétt sem tveir hv. þm. hafa haft eftir mér hér í þessari umræðu. Ég hef sagt og byggt á niðurstöðum mælinga að við vissar kringumstæður geta efni sem koma úr útblæstri bifreiða leitt til þess að heilsa spillist. Þetta gilti sérstaklega á árum áður þegar mun meira af blýi var í útblæstri bifreiða en nú er. Þá lágu fyrir ákveðnar kannanir aðallega erlendis frá um skaðsemi þess, sérstaklega fyrir ung börn. En þetta mál er jákvætt og það sýnir mikinn hug flm. til að draga úr þeirri mengun sem er að finna í útblæstri farartækja hér á landi.
    Það er einungis eitt sem ég held að hv. umhvn. ætti að velta fyrir sér þegar að því kemur að hún fer sínum mjúku höndum um þessa þáltill. Það er hvort ekki ætti að bæta inn í tillöguna að ekki einungis umhvrh. verði falið að gera þetta heldur og fjmrh. Þó að ég finni ekki í greinargerðinni hvað þetta kynni að kosta hið opinbera ef það mundi ráðast í kaup á slíkum búnaði fyrir allar ríkisbifreiðar þá geri ég ráð

fyrir að það hlaupi á talsvert háum upphæðum. Og það er reynsla mín, eins og annarra sem hafa vélað um umhverfismál, að þó allir séu ævinlega tilbúnir til að taka undir góðar hugmyndir og góðar tillögur þá dregur stundum úr því þegar að því kemur að reiða fram fjármagn til að hrinda þessum ágætu hugmyndum í framkvæmd. Það er þess vegna sem ég beini því til hv. umhvn. hvort hún ætti ekki að gera örlitla bót á þessari tillögu að þessu leytinu.