Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 15:49:50 (4588)


[15:49]
     Auður Sveinsdóttir :

    Virðulegur forseti. Hér er lagt fram frv. til laga um vernd Breiðafjarðar. Um er að ræða stórt landsvæði sem að mörgu leyti myndar eina landfræðilega og náttúrufarslega heild eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra. Með lögunum um verndun Þingvalla frá árinu 1928 ásamt lögum um Laxá og Mývatn frá árinu 1974 má segja að mörkuð sé viss stefna um verndun. Þar sem ástæða þykir til að viðurkenna og vernda á einhvern hátt stærri landsvæði og sérstöðu þess er talið rétt að setja sérlög. Sjálfsagt kunna einhverjir að velta því fyrir sér á hvaða hátt gildandi lög um náttúruvernd og önnur þau lög er snerta umgengni við landið séu ekki nægjanleg og hvers vegna þurfi að setja sérlög um slík svæði. Vafalaust má velta þessu fyrir sér, ekki síst í tilefni þess að nú stendur yfir endurskoðun á núgildandi lögum um náttúruvernd. En meðan ekki hefur orðið breyting á tel ég hins vegar nauðsynlegt að fara þá leið sem hér er verið að leggja til. Ástæðurnar eru margar en skki síst að með þessu er mögulegt að samræma reglur, m.a. mismunandi eignarhald á landi, mismunandi áherslur á friðun og nýtingu, verndun og meðferð menningarminja og ekki síst tekur þetta til hins félagslega þáttar, svo sem búsetu og atvinnu. Ekki síst er þetta unnið í samvinnu við heimamenn sem ég tel ákaflega mikilvægt atriði í þessu máli.
    Ég styð þetta mál en vil jafnframt koma á framfæri nokkrum athugasemdum við frv. og greinargerðina. Í fyrsta lagi er í 4. gr. talað um staðfest skipulag. Ég tel vanta talsvert á að skilgreina nánar þennan þátt skipulagsins í þessari lagasmíð, ekki síst hvernig þetta tengist núgildandi skipulagslögum og hver lögformleg staða skipulags innan svæðisins verður. Það kann að vera að það verði skilgreint nánar í reglugerð, en ég tel ástæðu til að það komi einnig fram í lögunum. Ég tel þetta mikilvægt vegna þess að tengingar við skipulagsáætlanir þurfa að vera hluti af sérlögunum. En samkvæmt frv. sem liggur fyrir er ekki hægt að gera sér almennilega grein fyrir þeim þætti.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég benda sérstaklega á eitt atriði sem ég tel að eigi að vera í greinargerðinni en það er þáttur byggingarlistar á svæðinu. Í kaflanum um náttúrufar og menningarminjar eru talin upp fjöldamörg atriði sem rétt er að vekja athygli á, en þar er ekki getið um hina sérstöku byggingarlistasögu, t.d. í Flatey. Byggðin þar á engan sinn líka á öllu Íslandi. Með mikilli natni, virðingu og þekkingu hefur stór hluti húsanna þar verið endurbyggður þannig að heildarsvipur byggðarinnar er alveg sérstakur og á, eins og ég sagði áðan, ekki sinn líka hér á landi. Það sýnir best áhugi þeirra sem sækja eftir dvöl í Flatey og ekki síst áhugi kvikmyndagerðarmanna jafnt erlendra sem innlendra sem leita þangað ef endurvekja þarf eldri tíma í sögu þjóðarinnar. Ég tel fulla ástæðu til að vernda þessa sérstöðu alveg sérstaklega og fara þarf afar gætilega við alla mannvirkjagerð í Flatey til þess að þessari heildarmynd verði ekki spillt.
    Með frv. hlýtur að opnast möguleiki á að verja þessa byggð og vil ég leggja til að byggingarlistinni verði gerð sömu skil og öðrum menningarminjum sem talin eru upp í greinargerðinni.
    Virðulegur forseti. Þetta frv. til laga er hið þarfasta mál og um leið og ég legg til að því verði vísað sem fyrst til frekari umræðu og afgreiðslu vil ég hvetja til þess að athugað verði nánar um réttmæti slíkra sérlaga fyrir fleiri svæði, t.d. vatnasvið Þingvallavatns.