Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 15:54:41 (4589)


[15:54]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að sýna þessu máli áhuga. Ég tel að þau markmið sem voru höfð til hliðsjónar við samningu frv. séu góð og held að vel hafi tekist til við að setja á blað það sem menn ættu að hafa í huga við þessa markmiðssetningu. Ég get út af fyrir sig ekki sagt um hvort mörk svæðisins séu nákvæmlega eins og best verður á kosið. Þar tel ég að þyrftu að liggja kannski betur fyrir skoðanir þeirra sem þarna þekkja best til og er kannski best að ég komi að því atriði fyrst.
    Það er mín skoðun að að þessu máli hafi ekki verið nægilega vel staðið í upphafi og ber reyndar ræða hæstv. ráðherra með sér að hafður hefur verið mjög hraðinn á við undirbúning málsins. Þannig er að hæstv. ráðherra mun hafa sent út bréf um miðjan desember og haldið síðan fund um málið á tveimur stöðum líklega í janúar. Þá voru menn alls óviðbúnir að ræða þetta mál af viti þannig að menn hefðu haft um það samráð á svæðinu. Þeir aðilar sem hafa mestra hagsmuna að gæta og bera hagsmuni svæðisins mest fyrir brjósti hafa að mínu viti ekki fengið tækifæri til að velta þessum hlutum nægilega mikið fyrir sér. Ég tel að út af fyrir sig sé ekki neinn skaði skeður. Það hlýtur að vera hægt að bæta úr þessu. Frv. er komið fram og þar með hafa menn eitthvað í höndunum til að tala um, en ég hvet hæstv. ráðherra til þess að líta ekki þannig á að það sé búið að klára þetta mál gagnvart heimafólki. Það verður bókstaflega að taka málið miklu fastari tökum í framhaldinu og ég tel ekki rétt að afgreiða þetta mál frá Alþingi í vetur einfaldlega vegna þess að það er ekki nægilega vel þroskað.
    Hins vegar vil ég endurtaka það að ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að setja málið af stað og í fullvissu þess að málið fái góða umfjöllun og verði vel að því unnið, þá efast ég ekkert um að að lokum munu menn finna réttu niðurstöðuna.
    En ég hef athugasemdir við sumt af því sem hér er sett fram. Ég hef t.d. athugasemd við hvort það er ekki umhugsunarefni að ráðherra umhverfismála setjist yfir svæðið með þeim hætti sem gert er ráð

fyrir hérna því að það er nánast ákveðið að umhvrh. sem slíkur stjórni svæðinu. ( Gripið fram í: Oddviti Breiðafjarðar.) Hann verði sem sagt með öll þessi mál í sínum höndum og á sínu borði. Þessi svokallaða Breiðafjarðarnefnd, sem er talað um að hafa, er ágætlega skipuð eins og hann leggur til að hún verði skipuð en hún á engin völd að hafa. Hún á einungis að veita umsagnir um þau mál sem ráðherra ætlar að láta framkvæma eða koma að borði hans. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það einhvers staðar hugmyndin að nefndin hafi frumkvæði? Það kemur ekki fram í þessum frumvarpsdrögum og sjálfstætt vald nefndarinnar er ekki sjáanlegt heldur í frumvarpsdrögum.
    Ég spyr líka: Hvert er hlutverk Náttúruverndarráðs og þeirra aðila sem hafa um þessi mál fjallað fram að þessu? Það er ekki sjáanlegt í frv. Ég bið menn að taka þetta ekki þannig að ég sé að mæla gegn því að menn vinni út frá þeim markmiðum sem ég lýsti mig samþykkan hér áðan, þ.e. verndun svæðisins með öllu því sem þar er verið að tala um. Það er ekki þannig sem ég er að tala. Ég tel mig þurfa að láta þetta koma fram við 1. umr. málsins að ég tel að ekki hafi verið nægilega vel að þessu staðið í upphafi.
    Ég hef orðið var við það að ýmsir heimamenn hafa hrokkið við eftir að þeir fengu þetta mál í hendurnar. Ég sendi nokkrum aðilum þetta mál strax og ég fékk það í hendur til skoðunar og hef síðan haft samband við aðila sem þekkja vel til þarna. Þeir eru sumir hverjir hálfsmeykir og telja sig lítið geta séð hvað muni breytast, hvaða hömlur og takmarkanir verði settar á þá sem þarna búa og nýta eyjarnar og lífríkið þar. Það er t.d. erfitt að sjá af því sem hér er sett fram hvort menn mega byggja sér einhvers konar vistarverur eða hús til nota í þessum óbyggðu eyjum eða bryggju til að nýta vegna þess að auðvitað þarf báta á þessum svæðum alls staðar. Menn sjá ekki út úr frumvarpsdrögunum hvernig að þessu verður í raun og veru staðið. Það virðist t.d. vera gert ráð fyrir því að bændur á lögbýlum þurfi að spyrja Breiðafjarðarnefnd og ráðherrann að öllu sem þeir ætla að gera. Samkvæmt orðanna hljóðan er það þannig. Í 2. mgr. 4. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Heimilar skuli þó framkvæmdir sem nauðsynlegar og eðlilegar teljast til búskapar á lögbýlum, nema spjöllum valdi á menningar- eða náttúruminjum að dómi Breiðafjarðarnefndar.``
    Þetta les ég þannig að það þurfi að spyrja um allar framkvæmdir sem t.d. bóndi á lögbýli vill framkvæma því að það þarf að gá að því hvort sú framkvæmd falli nefndinni í geð eða hún telji að einhverju sé spillt með henni.
    Svona hlutir þurfa að liggja ljósir fyrir. Fólkið sem þarna á hlut að máli þarf að vita hvað þetta þýðir. Ef við setjum þessar reglur, þá verða þær takmarkandi og eiga að vera takmarkandi en við eigum líka að kynna þær með svo skýrum hætti að menn viti hvað til stendur.
    Ég tel að þá þurfi líka að liggja fyrir leiðbeiningar til þeirra sem ganga um svæðið því að t.d. segir í síðari mgr. 5. gr.:
    ,,Í reglugerð skulu einnig sett ákvæði um aðgang ferðamanna að tilteknum stöðum á svæðinu sem viðkvæmir eru vegna náttúrufars.``
    Þá þarf auðvitað að gefa þær leiðbeiningar út og sjá til þess að allir sem um svæðið fara hafi þær í höndum og viti hvernig þeir mega ganga um þetta svæði og hvað má aðhafast á svæðinu öllu. Ég held að þessi umræða sé ákaflega nauðsynleg til þess að menn gangi þannig frá málum að það verði eitthvert vit í framkvæmdinni.
    Í 6. gr. stendur: ,,Ráðherra er heimilt að leyfa starfrækslu náttúrurannsóknastöðvar á Breiðafirði. Í reglugerð sem ráðherrann setur að fenginni tillögu Breiðafjarðarnefndar skal kveða á um stjórn og starfsemi stöðvarinnar.``
    Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann fyrir með þessa heimild? Það er ekki á ferðinni ákvörðun um að koma þessari rannsóknastöð á fót og mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því hvort þetta er einhvers konar framtíðarmúsik sem ráðherrann vill hafa heimild til að koma upp eða hvort hann er með alveg ákveðnar hugmyndir á bak við það að setja þetta í 6. gr. því að það er ekkert auðveldara fyrir hæstv. ráðherra en flytja það mál á Alþingi ef hann ætlar að koma á fót slíkri stofnun í framtíðinni. Það væri mjög fróðlegt fyrir menn að vita hvort eitthvað sé að gerast í þessu núna á næstunni.
    Mig langar að spyrja aðeins. Það er sagt að þeim sveitarstjórnum sem málið varðar hafi verið send drögin að frv., og ég endurtek að ég tel að tíminn hafi verið allt of skammur til að vinna að þessu verki. Það er sagt: Sveitarstjórnum sem málið varðar. Og nú spyr ég: Hvaða sveitarstjórnir eru það sem málið varðar? Eru það eingöngu þær sveitarstjórnir sem eru með land innan þess svæðis sem mörkin eru dregin um? Telur hæstv. ráðherra að sveitarstjórnir í öðrum byggðarlögum sem liggja nærri hafi ekkert með þetta mál að gera? Ég tel að það sé rangur skilningur ef þannig er litið á málið og spyr hvort sveitarstjórnir annars staðar, þ.e. utan þessa afmarkaða svæðis, hafi fengið það til umsagnar.
    Mig langar síðan til að spyrja hæstv. ráðherra dálítið út í nýtingu lífríkisins í sjónum á þessu svæði. Í umsögn um 5. gr. frv. er talað um óæskileg veiðarfæri eða önnur verkfæri til þess að nýta lífríkið í sjónum. Mig langar til að spyrja í því sambandi hvaða skoðanir hann hafi á því og hvaða möguleika hann telji að umhvrn. eigi að hafa til þess að skipta sér af nýtingu fiskimiðanna í tengslum við það verkefni sem hér er verið að tala um. Er hæstv. ráðherra kannski á þeirri skoðun að umhvrn. eigi að taka upp vörn fyrir fiskimiðin í landinu? Ég trúi því að ýmsir geti verið honum sammála um það, ef hann hefur þá skoðun, að það sé ekki síður verkefni umhvrn. að taka á þeim vandamálum sem fylgja nýtingu fiskimiðanna heldur en annarri umgengni um lífríkið í og við landið.
    Í Breiðafirði er verið að nýta mjög margvíslegt dýralíf. Það er náttúrlega verið að nýta fiskstofnana sem þar eru. Það er verið að nýta hörpuskelina og ígulkerin, þangið og fuglana og æðardúninn. Ferðamennskan hefur mikil áhrif á þetta svæði og menn eru þarna að njóta náttúrunnar með ýmsum hætti og auðvitað hefur þetta allt áhrif. En ég vil taka það sérstaklega fram að ég held að menn hafi ekki bent á að núna ættu sér stað einhver spjöll á náttúrunni þarna. Ég held þvert á móti að það fólk sem um þetta svæði hefur mest farið og það fólk sem nýtir lífríkið hafi umgengist það með alveg sérstaklega aðdáunarverðum hætti. Það sjá allir sem fara um þetta svæði að þar er að mörgu leyti vel að hlutum staðið. Ég teldi það hið versta mál ef við fengjum fólk, með því að vinna ekki að svona málum með fullri virðingu fyrir þessu fólki, að einhverju leyti upp á móti ýmsum aðgerðum sem hér er verið að leggja til að verði skoðaðar.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti. Ég legg til að þetta mál verði mjög vandlega skoðað. Þarna eru á ferðinni að mínu viti mjög góðar hugmyndir. Spurningin finnst mér snúast fyrst og fremst um vinnuaðferðir og grundvallarsjónarmið gagnvart því hvernig eigi að standa að verndun slíkra svæða en það er ekki ágreiningur um markmiðin.