Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 17:13:28 (4594)


[17:13]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Málefnið sem hér er rætt er verndun Breiðafjarðar. Ég verð að játa það að þegar ég sá þetta fyrst á dagskrá þá rak ég upp stór augu. Svo vill til að ég er borinn og barnfæddur í Stykkishólmi, er Breiðfirðingur, og var þar til æskuáranna og fór þess vegna að hlusta hvað menn höfðu um þetta svæði að segja því mér hefur auðvitað þótt mjög vænt um það alla tíð. Ég ætla ekkert að lengja málið hér, það er búið að segja svo mikið og margt, bæði vafasamt og neikvætt úr þessu púlti í dag og ég þarf engu að bæta við það og vil ekki neinu við það bæta.
    Ég tek innilega undir þessa tillögu. Mér sýnist mjög hyggilegt að friðlýsa og friða eða vernda, hvort orðið sem menn vilja nota. Það er auðvitað hægt fyrir góða lögfræðinga eins og ég er nú að finna einhvern veg til þess að menn gætu sætt sig við þessa ákvörðun í þessu tilfelli og aðra annars staðar og þar að auki eru lög breytileg og ef eitthvað reyndist illa í löggjöf þá er auðvitað hægurinn á að breyta því. Ég held að það þurfi ekki að óttast það að hér séu stór skakkaföll sem hugsanlega gætu orðið.
    Ég ætla eiginlega ekki að andmæla einu eða neinu af því sem hér hefur verið sagt, ég hlustaði mjög gaumgæfilega eins og þið getið öll ímyndað ykkur því ég lék mér í fjörunni og þekkti dýrin þar og þetta voru vinir mínir meðan maður var að drepa smáseyðin. En það kvað svo rammt að að ég bjó í bókstaflegri merkingu í og á sjónum af því að faðir minn keypti íshús, ekki frystihús heldur íshús og byggði ofan á það íbúðarhús og þar bjó ég og mín fjölskylda og ég lék mér sem sagt á byttum þar niðri af því að gætti sjávarfalla í kjallaranum. Svoleiðis að ég get vel talað um lífið í Stykkishólmi á þeim tíma og ég veit ekki betur en að það hafi verið varðveitt eins vel í Stykkishólmi og á nokkrum öðrum stað, þessi gæði náttúrunnar, bæði á landinu, í fjöruborðinu og annars staðar. Ég held að menn geti ekki sýnt fram á eða haldið því fram með neinum rétti að neinn annar staður leiki betur við náttúruna heldur en við gerum Hólmarar og Breiðfirðingar.
    En það líður á dag og komin sjálfsagt allt of löng umræða um þetta efni þó það sé auðvitað mikilvægt og ég læt mínum orðum lokið.