Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 17:17:15 (4595)


[17:17]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það frv. til laga sem hér er til umræðu hefur nokkra sérstöðu hvað það varðar að það er ekki deiluefni við Breiðafjörð að menn vilji með lögum vinna að því að vernd lífríkisins og vernd náttúruminja sé lögfest á Alþingi. Vilji er fyrir því og ég hygg að það sé hægt að fara nokkuð langt aftur í söguna til þess að benda á að í Breiðafirði voru fyrr almenn ákvæði um verndun náttúrunnar en annars staðar á Íslandi. Hitt er svo annað mál að lögin eru tvíþætt. Annars vegar er þetta markmið sem samstaða er um og hins vegar er það stjórnunarlega kerfið sem hér er sett upp. Það er eiginlega settur oddviti yfir Breiðafjörð. Það er settur jarl yfir Breiðafjörð og þetta á ekki að vera bundið neinni ætt eða slíku, það er ekki gengið frá því lögformlega á þann hátt, heldur á þetta að sveiflast til eftir því hver situr í stóli umhvrh. ( StG: Gæti sá sami ekki verið þingmaður?) Það getum við átt undir þingmönnum, dugmiklum þingmönnum, eins og t.d. Agli á Seljavöllum, hv. 3. þm. Austurl., hversu skjótt er skipt um oddvita yfir Breiðafirði og það er spurning hvort það eigi að sveiflast til með þeim hætti.
    Því set ég þetta fram að ég hef verið hlynntur þriðja stjórnsýslustiginu en ofurliði borinn af þeim spekingum sem telja það hreina vitleysu. Nú sýnist mér að það eigi að setja upp þriðja stjórnsýslustigið. Það eigi fyrst að vera sveitarstjórn, svo eigi að koma jarl yfir Breiðafjörð og svo eigi að koma ríkisstjórn yfir Íslandi. Ég veit ekki til að þessi uppbygging á þriðja stjórnsýslustiginu hafi nokkurs staðar verið keyrð í Evrópu en auðvitað gæti það tekið yfir ef menn væru almennt þeirrar skoðunar að þannig bæri að standa að þessu. Ég held nefnilega að stjórnsýslulega séð hljóti þetta að vera mikil spurning. Lögin eru t.d. þannig sett upp að staðfest skipulag heldur velli en ef byggingar eru ekki eftir staðfestu skipulagi þá heyra þær undir umhvrh. Við skulum örlítið fara yfir þetta. Nú er skylda að skipuleggja alla hluti. Nú sækir Jón Jónsson um byggingu sem ekki er á staðfestu skipulagi. Umhvrh. neitar og þá tekur Jón Jónsson það til bragðs af því að hann er með þokkaleg ítök í hreppsnefndinni að óska eftir því að umrædd bygging verði sett inn á staðfest skipulag og hengd upp til umsagnar næstu þrjár vikurnar. Svo keyrir hann málið áfram. Þá kemur að þeim þætti hvort umhvrh. vill staðfesta þetta skipulag vegna þess að hann er kannski andvígur byggingunni eins og áður hefur komið fram. Þá er þessi sveitarstjórn raunverulega komin í allt aðra stöðu en aðrar sveitarstjórnir á Íslandi. ( Gripið fram í: Verður ekki umhvrh. vanhæfur?) Nú er því varpað fram hvort umhvrh. verði bara ekki vanhæfur undir þessum kringumstæðum. Ekki ætla ég að dæma um það. En að mínu viti er þessi stjórnunarlega uppsetning svo sérstæð að hún hlýtur að vera ærið umhugsunarefni. Ef við viljum halda okkur við það sem meginreglu að það sé þrískipting valdsins þá fer það ekki á milli mála að sú ákvörðun að hægt sé að beita dagsektum upp á 10.000 kr. á dag sem hér er sett inn, það er orðin slík refsisekt á venjulegan mann að hann þarf að vera á margföldum ráðherralaunum til þess að mega þrjóskast við. Þetta gerir yfir 3,6 millj. á ári ef hann þrjóskast við í heilt ár. Ég verð að segja eins og er að miðað við hæstaréttardóma þar sem menn hafa verið að fá sektir fyrir alls konar brot þá sýnist mér að þessi sjóður geti orðið nokkuð gildur. Það getur vel verið að mönnum finnist að það sé ekkert um annað að ræða en að leyfa sektartökur á þessu og þó er þetta á tvo vegu. Sekt sem sett er vegna þess að menn eru að brjóta lög er allt annars eðlis en sekt sem sett er á vegna þess að þeir vilja ekki lúta tilskipun um að gera einhverja ákveðna hluti sem ætlast er til að þeir framkvæmi. Ég vil eiginlega líta svo á að hér sé um mjög ólíkan grundvöll að ræða.
    Ég held að það þurfi mjög að hugleiða þetta kerfi, að ekki þurfi að fara með brot manna við Breiðafjörð fyrir dómstóla, hvort það sé nóg að framkvæmdarvaldið sé látið tyfta menn til og þannig sé staðið að málum. Það er ærið umhugsunarefni. Ég bið hæstv. ráðherra í fullri vinsemd að taka þetta ekki til sín. Það er ekki verið að ganga frá því í lögunum að það skuli tengt ákveðnum ráðherra heldur hitt að þetta er framtíðarskipulag sem menn eru að setja upp. Og það sem við erum að vinna að á Alþingi síðustu árin er einmitt að reyna með öllu móti að útiloka geðþótta stjórnvaldsákvarðana í landinu. Það var samþykkt mjög merk löggjöf, stjórnsýslulög, sem er sérstaklega ætlað að taka á þessum þætti.
    Ég hljóp yfir það dálítið undrandi hvernig menn raða upp markmiðunum með setningu laga um vernd Breiðafjarðar. Með leyfi hæstv. forseta, er fyrsta atriðið að vernda landslag, einstakar jarðmyndanir og lífríki Breiðafjarðar. Mér finnst nokkuð mikið í lagt að ætla að vernda landslagið. Það hefði ekki verið efnilegt með Heimaey hefði verið búið að binda það í lög að þar ætti að vernda landslagið og svo hefði gosið. Ég er hræddur um að það hefði verið dálítið erfitt að standa á því að þar skyldi allt óbreytt. Hvað sem segja má um þessa hugsun þá er landslagið við Breiðafjörð ekki í neinni bráðri hættu mér vitanlega. Þarna varð jarðsig fyrir löngu síðan. Hitt er annað mál að það sem kemur hér seinna, einstakar jarðmyndanir og lífríki, það er það sem allir venjulegir menn hafa skilning á. Landslagið sem slíkt liggur að sjálfsögðu undir áföllum veðra og vinda og sjávarágangi en að það skuli vera fyrsta markmiðið að segja þessum öflum stríð á hendur og vernda landslagið, það fæ ég ekki séð að sé svona beint rökrétt sem aðalmarkmið í tilganginum. Svo kemur mjög gott markmið að tryggja vernd menningarminja. Þriðja er einnig mjög gott, að búa í haginn fyrir vaxandi fjölda ferðamanna og tryggja almenningi aðgang að náttúru fjarðarins og sögu án þess að spjöll hljótist af. Fjórða: að stuðla að auknum rannsóknum á lífríki og jarðfræði Breiðafjarðar. Fimmta: að renna styrkum stoðum undir eyjabúskap og aðra hefðbundna nýtingu hlunninda á Breiðafirði.
    Hér stendur það skýrum stöfum sem hv. 4. þm. Austurl. hnaut að nokkru leyti um. Þessi lög verða ekki skýrð á annan veg en þann að þetta sé stuðningur við landbúnaðinn, það sé ætlunin að styðja við byggðina því það verður varla styrkum stoðum rennt undir eyjabúskapinn nema að það sé stutt við byggðina.
    Ég held þess vegna að inn í hinn almenna lagatexta hljóti að vera eðlilegt að setja ,,að hefðbundnar nytjar svæðisins eigi að haldast``. Þar á ég við hvort heldur um er að ræða selveiði, grásleppuveiði eða nytjar af fuglum. Mér fyndist eðlilegt miðað við markmiðin að þetta sé sett inn í lagatextann.
    Svo vil ég einnig, af því að ég sé að hæstv. ráðherra hlustar grannt eins og vera ber, vekja athygli hans á því að það er eðlilegra orðalag að setja í 3. gr. sveitarstjórn Reykhólahrepps heldur en héraðsnefnd Austur-Barðastrandarsýslu vegna þeirrar einföldu ástæðu að Austur-Barðastrandarsýsla er orðin að einu sveitarfélagi.
    Jafnframt vil ég vekja athygli á því að miðað við þær markalínur sem hér eru dregnar þá hlýtur það að vera rökrétt að Barðastrandarhreppur eða hið nýja sveitarfélag sem er þar í burðarliðnum fái fulltrúa inn í nefndina. En hér er tilgreint Hagadrápssker og nafnið er að sjálfsögðu dregið af Haga á Barðaströnd og það er mikið svæði af Breiðafirði sem tilheyrir Barðastrandarhrepp. En það fer ekkert á milli mála að stærsti hluti Breiðafjarðar er í Vestfjarðakjördæmi. Flateyjarhreppur hinn forni var náttúrlega sá hreppurinn sem náði yfir mest af þessu svæði en er nú hluti af Reykhólahreppi.
    Ég hygg að hæstv. ráðherra, og ég vil trúa því, gangi gott eitt til með tillöguflutningnum, hann sé í eðli sínu vinveittur bæði þessu svæði og eins vilji hann vinna að því að tryggja náttúruvernd sérstaklega og ég held þess vegna að til þess að minnka kvíða manna við tilkomu þessarar lagasetningar sé það mjög stórt atriði að það sé sett inn í lagatextann sem ég gat um hér áðan, að hefðbundnar nytjar séu leyfðar eftir sem áður og allar hugmyndir um að hrófla við þeim séu settar til hliðar. Það er nefnilega því miður staðreynd að þegar menn hugsa til náttúruverndar, þá er það of oft sem mönnum verður hugsað til þeirra öfgahópa, hvort heldur það eru Greenpeace eða aðrir aðilar, sem neita að viðurkenna þá staðreynd að eins dauði er annars brauð og hringrás lífsins byggist líka á tilvist þeirra sem éta önnur dýr og eitt af þeim dýrum sem það gerir er mannskepnan svo sannarlega.

    Ég vænti þess að þetta mál verði skoðað með jákvæðu hugarfari í nefnd og þeir liðir sem ég minntist hér á, þ.e. þeir liðir sem eru stjórnunarlegs eðlis verði skoðaðir út frá því sjónarmiði, m.a. þær sektargreiðslur sem hér eru settar upp hvort ekki sé eðlilegt ákvæði að menn lúti almennum lögum við Breiðafjörð, sæki og verji sín mál fyrir dómstólum þar en búi ekki við svo sterka yfirstjórn að þeim sé ætlað að lúta fyrirskipunum ráðherra og komi illa vörnum við. Þetta er ég að segja af því að ég veit að hæstv. ráðherra mun ekki dvelja mjög lengi í þessu ráðuneyti. Hann sækir ört til mannvirðinga innan flokksins eins og menn vita og allt gott um þær hugrenningar. ( Umhvrh.: Er eitthvað að losna?) Ég hygg að miðað við afsetningarhraða á þingmönnum Alþfl. á þessu kjörtímabili þá sé hægt að setja það upp í línurit hvenær gera megi ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé kominn í mestu mannvirðingarstöðu í flokknum og hann þurfi því ekki að spyrja eins og hann viti ekki hvort eitthvað sé að losna í Alþfl.
    Ég hygg líka að ráðherra sé það metnaðarmál að alveg eins og hann hafði einhug manna með sér á fundi í Króksfjarðarnesi þegar rætt var um að setja lög um verndun lífríkisins þá vilji hann að sú lagasetning sé í þeirri sátt við íbúa þessa svæðis að einhverjir stjórnunarþættir sem e.t.v. eru vel meintir en brjóta í bága við venjulega stjórnskipun verði ekki til að sverta þetta mál.
    Ég tel að menningin við Breiðafjörð hafi um miðja 19. öld staðið hæst á Íslandi og bakvarðarsveit Jóns Sigurðssonar átti rætur til foringja sem bjó í Flatey og þar er fyrsta almenningsbókasafn á Íslandi. En lestur bóka var að sjálfsögðu það sem færði Íslendinga hvað hraðast inn í þá samtíð sem við búum við í dag. Ólafur Sívertsen var í þeirri sveit Vestfirðinga, forustusveit sem stóð að Kollabúðarfundum við botn Breiðafjarðar þar sem menn réðu ráðum sínum um það hvaða mál það væru sem mesta áherslu bæri að leggja á í þeim bréfum sem þeir sendu Jóni Sigurðssyni. Og þó að þessir fundir hafi verið við Breiðafjörð, bændafundirnir eins og Matthías Jochumsson kallar þetta í kvæði sínu, þá voru menn af Vestfjörðum öllum sem mættu þar og sýslumaður Ísafirðinga var þar fundarstjóri sennilega flest árin. Eitt árið var hann það þó ekki því að þá hafði hann konungsskipun um það ásamt öðrum sýslumönnum Íslands að sjá til þess að bændafundir eins og þeir sem haldnir voru inni á Kollabúðum yrðu ekki haldnir þar sem þar væri verið að hvetja til uppreisnar gegn löglegum stjórnvöldum landsins. En það er kannski þess vegna ekkert skrýtið þó að það sé margt menningarverðmæta sem þarf að vernda við þennan fjörð og eitt af því sem verður að setja fjármuni í sem allra, allra fyrst, það liggur við að segja megi í síðasta lagi strax, er í bókasafnið í Flatey og ég vona að hæstv. umhvrh. hafi meðtekið það.