Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 17:53:12 (4597)


[17:53]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þótti slæmt að hæstv. umhvrh. komst ekki nema hálfa leið í gegnum ræðu sína þannig að sumt hefði kannski komið fram af því sem ég hefði talið ástæðu fyrir hann að fjalla um í sínu máli.
    Ég ætla að veita andsvar vegna þess að hann sagði í fyrri hluta ræðu sinnar að frumkvæðið væri heimamanna. Með þessu fyrirkomulagi sem hann leggur hér til væri hann að leggja það til að frumkvæðið ætti að vera heimamanna og þessi Breiðafjarðarnefnd væri frumkvæðisaðilinn. Það er ekki hægt að sjá það á þeim texta sem hér er lagður fyrir að frumkvæðið sé heimamanna einfaldlega vegna þess að það er sagt skýrum orðum að Breiðafjarðarnefnd sé stjórnvöldum til ráðgjafar. Það er talað um að það skuli að vísu leita tillagna Breiðafjarðarnefndar við setningu reglugerða og annarra ákvæða og síðan að nefndin skuli árlega gefa ráðherra skýrslu um störf sín. Það er svolítið merkilegt að það skuli standa vegna þess að verkefni nefndarinnar eru talin upp og þau eru að það á að leita til nefndarinnar um umsagnir og annað því um líkt. Það er hvergi að sjá í þessum texta að nefndin eigi að hafa frumkvæði.
    Síðan tel ég mjög nauðsynlegt að ráðherra geri okkur betur grein fyrir afstöðu sinni til 4. gr. en hann gerði því þar er raunverulega alræðisvald sett á hans hendur gagnvart öllum mannvirkjum og jarðraski og það á líka við um búsetu á lögbýlum þannig að það er ekki hægt að gera eitt eða neitt samkvæmt orðanna hljóðan í lagatextanum öðruvísi en ráðherrann sjálfur samþykki það og veiti til þess sinn stimpil.