Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 17:55:32 (4598)



[17:55]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni þá tel ég að eins og frv. lítur út sé þar tryggt frumkvæði heimamanna. Ég lýsti því líka yfir að það væri ekki ætlan mín með þessu frv. að reyna að taka vald úr héraði. Ég lýsti því jafnframt yfir í framhaldinu að ég set mig ekki gegn því að umhvn., til að hægt sé að ná góðri sátt um þetta mál, finni annað orðalag sem tryggi það betur að valdið sé hjá heimamönnum. En ég vek athygli á því að í 5. gr. er talað um að ráðherra setji reglugerð að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar um vernd lífríkis á svæðinu. Hann veitir sömuleiðis leyfi að fenginni umsögn Breiðafjarðarnefndar. Þetta tengist auðvitað saman. Menn ætla sér að efla rannsóknir á svæðinu og ég sagði í minni ræðu að það starf ætti að vera bakhjarl þessarar nefndar. Segjum svo að rannsóknir og vöktun á svæðinu leiði til þess að menn telji að þar sé að birtast einhvers konar mengun. Þá munu þeir vísindamenn sem þar eru láta nefndina vita sem gerir síðan tillögur til ráðherra.
    En ég lýsi því enn og aftur yfir að ég hef ekkert á móti því að nefndin finni í umfjöllun sinni betra orðalag sem tryggir betur frumkvæði heimamanna.
    Varðandi það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson spyr um með 4. gr. þá er mannvirkjagerð heimil samkvæmt staðfestu skipulagi án þess að til komi nokkurt leyfi ráðherra. Sömuleiðis eru heimilar þær framkvæmdir sem teljast nauðsynlegar vegna búskapar á lögbýlum. Ég er því ósammála honum um það að hvað eina sem bændur framkvæmi geti mögulega verið á mörkum þess að kallast spjöll því þar segir einungis að það þurfi leyfi til framkvæmda á lögbýlum ef um er að ræða spjöll sem kunna að verða á menningar- eða náttúruminjum. Ég er honum því ekki sammála um þetta.