Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 17:59:00 (4600)



[17:59]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson kvartar undan því að í frv. sé ekkert sem segi að fólk geti snúið sér til nefndarinnar með ýmis mál. Ég tel að það þurfi ekkert að segja það neitt sérstaklega í frv. vegna þess að það speglast í samsetningu nefndarinnar. Menn skulu athuga hvernig nefndin er samansett. Þar eiga að vera fimm menn og þar á að vera einn eftir tillögu héraðsnefndar Dalasýslu, einn eftir tillögu héraðsnefndar Austur-Barðastrandarsýslu, einn eftir tillögu héraðsnefndar Snæfellinga. Það liggur því einmitt í samsetningu nefndarinnar að hún er fulltrúi fólksins á svæðinu og það er einmitt þess vegna sem nefndarmenn eru teknir úr þessum héraðsnefndum. Þangað eiga menn að leita með sín mál og það er eðlilegt að fulltrúarnir taki þau síðan upp í þessari nefnd.
    Ég er því algjörlega ósammála hv. þm. um þetta tiltekna atriði þó ég sé honum sammála um að valdið á að vera í héraði eins og ég reyndar reifaði í löngu máli í upphafi minnar ræðu sem hann bersýnilega hefur ekki verið viðstaddur.