Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:00:13 (4601)


[18:00]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hæstv. umhvrh. vil ég vekja athygli hæstv. ráðherra á því að það er ótvírætt að ráðherrann fer með reglugerðarvaldið. Það er alveg sama hversu margra umsagna eða tillagna hann óskar, það er ráðherrann sem fer með valdið. Það hef ég bent á í þessari umræðu og tel að sé óeðlilega mikið, það sé gengið óeðlilega langt inn á valdsvið sveitarstjórnanna.
    Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra taldi að 4. gr. frv. væri mikilvægust. Ég áttaði mig á því að þar er fjallað um þetta ótakmarkaða vald ráðherrans yfir þessu svæði. Ég vil taka dæmi. Ef sett væri sérstök löggjöf um vatnasvæði Tjarnarinnar í Reykjavík, sem er ein af náttúruperlunum í landinu, væri það talið eðlilegt að ráðherrann réði því hvernig væri unnið á bökkum Tjarnarinnar? Væri það eðlilegt? Getið þið ímyndað ykkur að borgarstjórnarmeirihlutinn, hver sem hann er og verður, mundi sætta sig við að það yrði að sækja um leyfi til hæstv. umhvrh. til þess að leggja gangbrautir meðfram Tjörninni eða annað því um líkt?
    Á þetta hef ég verið að benda en ég heyrði sem betur fer að ráðherrann tók mjög mikið tillit til þess sem ég gagnrýndi í frv. og ég fagna því og legg enn og aftur áherslu á það og fagna því að ráðherrann tók undir að það er vald og ábyrgð --- ég undirstrika ábyrgð, heimamanna í þessu efni sem gildir. Þannig og því aðeins tryggjum við vernd Breiðafjarðar eins og allra annarra svæða sem við viljum varðveita.