Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:14:22 (4606)


[18:14]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það var dálítið merkilegt að hlusta á þessi orð og hreint alveg ótrúlegt að menn skuli treysta sér til að tala með þessum hætti. Varðandi bráðabirgðalögin sem sett voru á sínum tíma á BHMR, þá voru menn að setja lög á samninga sem þeir höfðu sjálfir gert. Það var ekki síst gagnrýnisatriði að menn voru að setja lög á samninga sem þeir höfðu sjálfir gert og talið algjöra tímamótasamninga, aldrei aðrir eins samningar verið gerðir og af slíkri sátt eins og þá. Menn muna eftir þessu.
    Hv. þm. nefndi það að þess hefði jafnan verið gætt þegar hann sat í ríkisstjórn og leiddi mál að tryggja það að fyrir lægi meiri hluti þingmanna með máli áður en bráðabirgðalög voru sett. Þegar lög voru sett í tíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, þar sem hv. þm. leiddi stærsta flokkinn í þeirri stjórn, þá lá fyrir yfirlýsing stjórnarþingmanna og lá fyrir að það var ekki meiri hluti fyrir þeim bráðabirgðalögum 1982. Þá var eingöngu sagt: Við skulum sjá og láta á það reyna þegar fram líða stundir. En það lágu fyrir fram yfirlýsingar lykilþingmanna stjórnarliðsins þannig að það var ekki hægt að sýna fram á það þá að meiri hluti væri fyrir hendi varðandi þessi lög. Það væri fróðlegt að taka saman öll þau bráðabirgðalög og tilefni, smá og stór, sem hv. þm. stóð fyrir eða tók þátt í á sínum langa ráðherraferli. Þá kæmi sjálfsagt ýmislegt í ljós. En það hefur gerst í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem var einmitt markmið með breytingu á stjórnarskrá, að bráðabirgðalögum hefur fækkað. En það er einmitt flokkur hv. þm. sem lagðist fastast gegn því að bráðabirgðalagaheimildin væri numin úr gildi. Ég man ekki betur, ég skal fletta því upp, en það hafi verið sett bráðabirgðalög á tímabilinu 1980--1983, þegar sumir voru formenn þingflokka, þar sem voru sett bannákvæði um hluti sem áttu að gerast í aprílmánuði. Þetta var gert á milli jóla og nýjárs. Þá hefði þing staðið í tvo mánuði áður en sá atburður átti að gerast sem bráðabirgðalögin tóku til.
    Það er því með ólíkindum að fjalla um málið með þessum hætti og bregða yfir sig þessum helgisvip vegna þess að ef við förum yfir öll þau bráðabirgðalög sem hv. þm. hefur tekið þátt í sem ráðherra að setja, sem eru fjölmörg, þá mundu menn sjá að tilefni til þeirra hafa verið léttvæg og menn hefðu gjarnan getað komist hjá því. Menn hafa séð meira að segja að skömmu eftir að þing fór heim hafa verið sett lög um efni sem þingið treysti sér ekki til að afgreiða. Skömmu eftir að þing fór heim settu menn slík lög og ég væri tilbúinn til þess að fara annars vegar yfir feril minn við setningu bráðabirgðalaga

og hv. þm. og á því er gríðarlegur munur.