Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:52:43 (4614)


[18:52]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vörn hv. þm. í þessu máli er svo sérkennilega að það tekur því varla að vera að elta ólar við það. Auðvitað er það rétt að fyrir allmörgum árum síðan fórum ég og ýmsir fleiri í þann leiðangur að reyna að fá þingið til að fallast á breytingar lögum og þingsköpum á þann veg að ákveðinn hluti af hinni opinberu umfjöllun þingsins yrði flutt í þingnefndirnar. Þingfundirnir yrðu opnir, allt þar sem þar væri sagt væri skráð, fjölmiðlarnir hefðu að þeim aðgang þannig að þingnefndirnar væru endurspeglun af þeim lögmálum umræðunnar sem gilda í þingsalnum. Þessar tillögur náðu ekki fram að ganga, hv. þm., þær voru einfaldlega ekki samþykktar. Þess vegna eru þingnefndirnar í dag í störfum sínum jafnlokaður og óformlegur vettvangur samráðs og samspjalls og þær hafa verið áratugum saman og engin skrá haldin þar af neinum um það sem fram kemur. ( GunnS: Og engin breyting 1991.) Sú breyting var gerð 1991 að menn gátu ef þeir vildu fjalla um mál fyrir opnum tjöldum, sú heimild hefur enn ekki verið notuð. Ég benti að vísu núv. hæstv. forseta á það að skynsamlegt væri að halda innréttingunni í efrideildarsalnum og hafa þar vettvang fyrir slíka opna nefndarfundi vegna þess að húsakostur þingsins hindrar slíkt en það var ekki orðið við þeirri tillögu. Staðreyndin er hins vegar sú að hv. þm. treystir sér ekki til þess að nefna neitt fordæmi um það að ósk þriggja þingflokka um að fresta máli við 1. umr. hafi verið neitað. Það er kjarni málsins hv. þm.