Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:00:49 (4616)


[19:00]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg greinilegt að hæstv. sjútvrh. hefur verið skammaður mjög rækilega fyrir það að segja frá því hvernig staðið var að setningu þessara bráðabirgðalaga og hann er hér að reyna að vinna sig á ný í álit fyrir að hafa orðið það á að upplýsa þingið um það með hvaða fáheyrðu vinnubrögðum hæstv. forsrh. Davíð Oddsson stóð að setningu þessara bráðabirgðalaga. Hæstv. sjútvrh. segir að við hefðum átt að beina orðum okkar til hans. Það var hann sjálfur sem upplýsti það í þinginu 25. jan. að það hefði verið forsrh. sem ræddi við forseta Íslands þannig að það eru orð hæstv. sjútvrh. sem leiða okkur til þess að beina þessum spurningum til hæstv. forsrh.
    Hvernig í ósköpunum eigum við að fara að ræða við hæstv. sjútvrh. um þessar fullyrðingar gagnvart forseta lýðveldisins þegar hann sjálfur að eigin frumkvæði kom því á framfæri við þingið að það hefði ekki verið hann sem kom þessum upplýsingum á framfæri við forseta lýðveldisins, heldur hæstv. forsrh. ( Forsrh.: Hvaða fullyrðingar við forseta lýðveldisins?) Það stendur hér hjá hæstv. sjútvrh., það er greinilegt að hæstv. forsrh. er orðinn svo órór undir þessu að þó hann geti ekki setið í salnum og svarað fyrirspurnum þá getur hann samt kallað fram í. Hæstv. sjútvrh. sagði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hæstv. forsrh. mun hafa greint forseta Íslands frá því að ríkisstjórnin hefði ástæðu til að ætla að ríkisstjórnin hefði meiri hluta fyrir lögunum.`` Síðan var hæstv. sjútvrh. búinn að upplýsa það að hæstv. forsrh. hefði bara talað við tvo þingmenn. Þess vegna höfum við spurt, bæði í janúar og aftur í dag, hvernig réttlætir hæstv. forsrh. það að ræða bara við tvo þingmenn og á hvaða rökum byggði hann þessa fullyrðingu sína að ,,hafa ástæðu til að ætla`` sem er hið óbreytta orðalag hæstv. sjútvrh.
    En hitt vekur svo athygli að hvorki í ræðum sínum í janúar né í dag reynir hæstv. sjútvrh. með einu orði að verja aðferð hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar að ræða bara við tvo þingmenn. Hann flytur stjórnskipunarteoríu ( Gripið fram í: Sem er ansi góð.) en hefur aldrei treyst sér til að lýsa því yfir að hann telji þetta góðan sið sem hæstv. forsrh. tók upp við setningu þessara bráðabirgðalaga.