Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:09:06 (4620)


[19:09]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er einn af þeim sem er sannfærður um að það voru ekki vanhugsuð orð hjá hæstv. sjútvrh., Þorsteini Pálssyni, þegar hann lýsti því yfir að aðeins hefði verið haft samband við tvo af þingmönnum Sjálfstfl. Annar þeirra lýsti því reyndar yfir að það hefði verið sjálfsagður hlutur að hafa samband við sig en skildi ekki nauðsyn á að tala við fleiri, en ég hygg að þetta hafi verið viss vísbending að koma vissum skilaboðum á framfæri við þingið og ég hygg að hæstv. forsrh. geri sér grein fyrir því.
    En hitt er umhugsunarefni að það efar enginn að hæstv. sjútvrh. sem jafnframt er dómsmrh. hefur fullan skilning á kenningunni um þrískiptingu valdsins. Hann hefur unnið að því hörðum höndum að framkvæmdarvaldið skilaði til dómsvaldsins öllu því sem skila bar til þess að fullnægt væri skilyrðum um aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds. En aftur á móti þegar kemur að því sem líka verður skilað þ.e. að framkvæmdarvaldið skili til löggjafarsamkomunnar, til þingsins, löggjafarvaldinu þá er það svo komið að það er ekki talið eðlilegt að virða gamlar leikreglur sem vissulega eru ekki skráðar í stjórnskipunarrétti en eru engu að síður hefðbundnar leikreglur, það er ekki talið rétt að virða þær, bókstafurinn skal blífa og þó er hæstv. ráðherra fulltrúi íhaldsmanna. Á þingi Breta er engin stjórnarskrá aðeins virðingin fyrir hefðunum sem blífur. Og einn forsætisráðherra hafnaði að virða virðinguna fyrir hefðunum og var settur af, ég kem að því síðar.