Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 20:52:15 (4635)


[20:52]

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil óróleika hæstv. ráðherra í þessum efnum. Ég dreg ekkert til baka af því sem ég hef sagt í þeim efnum. Mér finnst óeðlilega hafa verið staðið að bráðabirgðalagasetningu. Mér finnst hreint með ólíkindum að hæstv. ráðherrar skuli segja að það komi í ljós við atkvæðagreiðsluna einhvern tímann síðar hvort þingmeirihluti hefur verið fyrir þessu máli eða ekki. Mér finnst það vægast sagt varla boðlegt að fara á fund forseta Íslands og óska eftir staðfestingu forseta á bráðabirgðalagasetningu án þess að geta lýst því yfir við forseta lýðveldisins hvernig staða Alþingis sé gagnvart því máli sem farið er fram á að sé staðfest hverju sinni.
    Mér finnst það varla boðlegt og ég á bágt með að trúa því, þó ég þekki það ekki sjálfur svo, að forseti Íslands hverju sinni vilji ekki grennslast fyrir um það hvort þingmeirihluti sé fyrir slíkri lagasetningu.
    En að lokum þetta, hæstv. forsrh. Það virðist hafa farið fram hjá forsrh. að það varð breyting á þingsköpum ekki fyrir löngu síðan og nú situr Alþingi allt árið og hægt er að kalla Alþingi saman til starfa hvenær sem er. Það var ein af ástæðunum fyrir breytingum á þingsköpum, að auðvelda það að hægt væri að kalla þing saman til starfa með skömmum fyrirvara.