Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 20:54:22 (4636)


[20:54]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefur engin breyting verið gerð á bráðabirgðalagavaldinu. Ætlar hv. þm. að segja mér að hann hefði heimtað það 16. júní þegar hann stóð að því að sett væru bráðabirgðalög um meðferð og skoðun og mat á sláturafurðum að hann hefði krafist þess að þing yrði kallað saman þegar þau neyðarlög, sem hann studdi, voru sett? Man hv. þm. eftir þessari neyð um mat og skoðun á sláturafurðum sem bráðabirgðalög voru sett um sem á bara að gera í ýtrustu neyð? Er þingmaðurinn að segja mér það að við núverandi aðstæður, vegna breytinga á þingsköpum, þá mundi þing verða kallað saman til að setja lög um meðferð og mat á sláturafurðum?
    Auðvitað veit þingmaðurinn að þetta er rangt. Það hefur ekki verið hringt í einn einasta þingmann stjórnarsinna til að fjalla um það hvort setja megi bráðabirgðalög um mat og skoðun á sláturafurðum. Þannig að menn voru að segja hér ósatt og tala gegn betri vitund því menn sjá það á þeim lögum sem menn eru að horfa á sem hv. þm. hefur stutt að þau eru alveg með ólíkindum. Tíu dögum fyrir þing eitt árið er gerð breyting á lögum um tollskrá. Heldur hv. þm. að þingið mundi vera kallað saman núna til að breyta tollskrá tíu dögum fyrir þing? Hv. þm. veit að þetta er rangt. Það er allt rangt sem þessir menn hafa sagt um það og einnig þessir tveir hv. þm., 7. og 8. þm. Reykn., sem sjá ekki ástæðu til að vera hér.