Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:29:26 (4645)


[21:29]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég verð að virða það hv. 5. þm. Austurl. það til vorkunnar þar sem hann í sigurvímu út af sigri í landbúnaðarmálum hugsar ekki mjög skýrt í kvöld. Ég hef ekki borið af mér neina ábyrgð á gildandi lögum. Eins og aðrir þingmenn Framsfl. stóð ég að setningu þeirra á sínum tíma og ég hef greitt þeim atkvæði mitt þegar þau hafa verið endurskoðuð hér. Ég bar á þau lof í ræðu minni hér áðan og held að þetta sé skásta kerfið þó það sé ekki fullkomið. Skásta kerfið sem samstaða getur orðið um í þjóðfélaginu. Ég hef hins vegar ekki séð fyrir allt sem hefur þróast í þessum lögum. Mér fannst það vera eðlilegt þegar lögin voru upphaflega sett að minnstu bátarnir væru utan kvóta, mér fannst þeð eðlilegt. En ef ég mætti reynslunni ríkari greiða atkvæði aftur, byrja upp á nýtt og snúa klukkunni til baka, þá hefði ég lagt mjög ríka áherslu á að strax hefði verið kvótasett á allar fleytur og eins strax kvótasettar allar nytjafisktegundir. Ég sá það ekki fyrir heldur að útvegsmenn færu að misfara með lögin, örfáir eða einhverjir útvegsmenn kynnu að misfara með lögin og knýja sjómenn til þess að kaupa handa sér kvóta. Það sá ég ekki fyrir og ég átti ekki von á því að menn höguðu sér þannig og ég held að það samræmist heldur ekki þessum lögum og það hefði ríkisstjórnin átt að stoppa strax með valdi og lagasetningu og þá hefði ekki komið til þessarar deilu.