Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:34:01 (4648)


[21:34]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. lýsti með allsérkennilegum hætti hvernig ætti að hans mati að standa að lausn kjaradeilna. Hann hélt því fram að ríkisstjórnin hefði fyrir sitt leyti átt að leysa þessar deilur áður en til verkfallsins kom. Og hver var sú aðferð sem hv. þm. benti á? Hún var sú að taka formann eins af öflugustu launþegafélögum landsins úr umferð eins og hann orðaði það. Ja, það er nokkuð sérkennileg afstaða sem hér er lýst að það sé leið til þess að leysa kjaradeilur að taka formenn stéttarfélaganna úr umferð. Ég þykist nú vita að hv. þm. hafi í raun og veru ekki meint eitt eða neitt með þessu en ég vona hins vegar að þessi ræða komi ekki fyrir sjónir forustumanna verkalýðshreyfingarinnar því að þeim gæti auðvitað dottið í hug að hv. þm. væri að lýsa stefnu Framsfl., en hvað sem um þann flokk má segja, þá finnst mér nú ekki sanngjarnt að væna hann um það að hafa stefnu af þessu tagi þegar komið er fram undir lok 20. aldarinnar.
    Hv. þm. sagði svo að til verkfallsins hefði verið boðað ekki til þess að fara í úrlausn kjaramála heldur til þess að breyta lögum og kollvarpa lögum um stjórn fiskveiða. Þessu sjónarmiði héldu vinnuveitendur fram þegar verkfallið hafði verið boðað og þeir héldu því svo stíft fram að þeir fóru í mál fyrir félagsdómi en þessu sjónarmiði vinnuveitenda sem hv. 1. þm. Norðurl. v. er hér að lýsa var hafnað hjá félagsdómi. Félagsdómur féllst ekki á þessi sjónarmið sem hv. 1. þm. Norðurl. v. er að lýsa og vinnuveitendur héldu fram. Og það hefði verið fullkomlega óeðlilegt að grípa fyrr inn í kjaradeiluna en gert var og stenst ekki að gagnrýna ríkisstjórnina annars vegar fyrir að hafa gripið of seint inn í deiluna og hins vegar fyrir það að hafa gert það allt of fljótt eins og kemur fram í máli sumra hv. þm. hér.